Strákapör

Stráklingunum mínum tókst að gera sig útlæga úr garði nágrannans. Bakkabræður tröðkuðu niður nokkur blóm í stórum blómapotti, blómin hafa það þó ágætt miðað við aðstæður og þurfti móðirin ekki að bæta tjónið með fjárútlátum. Þeir máttu þó eiga það félagarnir að þeir viðurkenndu verknaðinn áður en upp komst og Matthías mætti fyrir hönd bræðranna og bað nágrannann afsökunar, enda hafði hann víst verið sá sem labbaði yfir blómin í stóra pottinum. Nágranninn (sem er örugglega farinn að óska þess að við flytjum) tók afsökunina gilda en lét Matthías þó vita af því að það væri ekki vel séð að þeir bræðurnir mættu inn í húsið óboðnir, maður bankaði eða dinglaði fyrst. Mamman reyndi að klóra í bakkann og segja syninum til syndanna og auðvitað dauðskammaðist sín, ekki nóg með að skæruliðarnir, stæðu fyrir skemmdarverkum á blómum heldur höfðu þeir tekið upp á því að gerast hústökumenn í miðju úthverfi. Að lokum nefndi nágranninn við Matthías að það væri ekki sniðugt að vera að leika sér með verkfærin í garðinum, henda kantskeranum upp í loftið og svona (verkfærin! Aftur! hugsaði mamman). Þegar inn í hús var komið hófust ræðuhöld móðurinnar við undirtektir föðurins og ákveðið var að bræðurnir færu í bann við að leika í garði nágrannans í einhverja daga, nú eða vikur ef með þarf. Þakka svo mínum sæla að ég eigi ekki marga nágranna.

Nýtt lag í spilarann „Silly song“ lag og texti eftir hana mig. Lagið fullkomlega laust við að vera nokkuð sem kallast listrænt, óttalega tjillað, vitlaust og bara nokkuð hresst  Kom út á safndisk nú í byrjun júní, sem heitir „Trúbatrix, Taka 1“ þar sem 17 tónlistarkonur sameinast um útgáfu á disk með eigin tónlist. Mjög skemmtilegt verkefni og held að diskurinn fáist í helstu verslunum, sem selja geisladiska.
Kemur kannski ekki á óvart en ber þó að nefna að Matti spilar á harmonikku, Jón Geir á trommur, Þröstur á gítar og mandolín og Ingó á kontrabassa ...voða flínkir að venju!

Með sól í hjarta vona ég að dagurinn verði góður..
Knús og kveðja, Áslaug


Það geta víst ekki alltaf verið jól

Ferðin hófst á föstudag fyrir viku síðan.  Ég var stödd í vinnunni og fékk símtal af leikskólanum, þar sem mér var tjáð að Matthíasi væri svo illt í hausnum.  Heilinn fór auðvitað samstundis af stað „hm. Ætli hann sé þurr“,“hm, það getur eiginlega ekki verið, því hann var tengdur í nótt“, voru meðal annars samræðurnar sem ég átti við sjálfa mig á leiðinni upp í leikskóla.

Matthías var kominn með hita, 38.8, prinsinn titraði og skalf og tæpum klukkutíma seinna var hitinn 39.8.  Skjálftinn vakti upp mynningu og „leggsýking“ kom upp í hugann.  Brunuðum að sjálfsögðu upp á bráðamóttöku, þar sem tekin var ræktun úr legg, sem og blóðprufur.

Skemmst frá því að segja að næstu dagar fóru í sýklalyf í æð, ekkert ræktaðist úr leggnum, sem og allir veirutíterarnir sem voru teknir svöruðu engu.  Ekki baktería, ekki veira, en crp 355 og blóðflögurnar hröpuðu niður í 24 þús.  Já, hvað veldur?  Ég býð fallegan bikar í verðlaun fyrir þann sem getur svarað!   En svona er lífið, tataraddata, surprise! 

Til að kóróna ferðina, fór ytri hluti leggsins í sundur, sem þýddi nýjan legg, svæfingu, stuð og stemningu sem bónus í þessari ferð.  Á föstudeginum (í upphafi ferðar) hafði Matthías sagt, án þess að nokkur væri að ræða eitt né neitt í kringum hann „það er allt í lagi að fara á spítalann, en ég ætla ekki að hitta fólkið í grænu fötunum“.  Mamman sem hafði nærri lofað því að ef við færum á spítalann, þá þyrfti hann ekki að hitta fólkið í „grænu fötunum“ (svæfing/skurðstofa), þurfti nú að draga loforð sitt til baka.  Loforð um stór verðlaun, dugðu þó ekki til, tárin trilluðu hjá prinsinum.

Leggurinn sem átti að fara inn á þriðjudegi, fór inn á fimmtudegi, eftir skraf, ráðagerðir og valdatafl í konungaríkinu Hringbraut.  Matthías sópaði til sín verðlaununum.  Ætli prinsinn hafi ekki verið hvað kátastur með áritað „Silfursafnið“ frá Páli Óskari, en líka himinlifandi yfir öllum hinum fínu gjöfunum.  Kannski ekki skrítið að Hjördís Anna sé farin að segja „ég vil vera veik og vera á spítalanum“, þegar litli bróðir kemur í hvert sinn heim, með fulla tösku af hinum ýmsu verðlaunum, fyrir vel heppnaða skapgerð í hverri ferð.

7-9-13, knock on wood og vonandi lengra á milli ferða í næsta sinn!

Knús og kveðja, Áslaug


Litli þrjóturinn

Oftast skrifar maður sögur af börnunum sínum, þegar þau gera eða segja eitthvað æðislega sniðugt og skemmtilegt.  Maður elskar þessi kríli auðvitað meira en lífið sjálft og myndi fórna sér á hvaða hátt sem er fyrir þau.  Stundum geta þau nú samt tekið á taugarnar og gert mann svo reiðan að ríkur úr hausnum og gegnum allar svitaholur líkamans.  Þannig var það þennan fimmtudagsmorgun.  Allir voru komnir ofur snemma út að leika sér í sól og blíðu, því á  slíkum dögum lætur maður ekki sólina sleppa frá sér þegar maður býr í landi elds og íss, rigningar og roks.

Allt í einu heyrir mamman nágrannakonu sína kalla, „Áslaug“, „Áslaug“!  Mamman kemur æðandi út úr húsinu.  Nágrannakonan segir „er hann svolítill gaur, þessi eldri“.  Mamman játar því að hann geti verið svolítið erfiður „stundum“.  Því næst fær mamman söguna af því sem gerðist.  Hálfdán Helgi hafði vippað sér inn í garð nágrannakonunnar og  tekið (stolið) ófrjálsri hendi öll garðverkfærin hennar, farið með þau, dreyft hluta þeirra yfir stórt sameiginlegt tún og falið restina.  Mamman, verður auðvitað rjúkandi reið yfir framferði sonarins, sem staðinn að verki, stendur glottandi.  Mamman reynir að útskýra fyrir syninum að svona hegðun sé óásættanleg... „svona gerir maður EKKI“ og reynir að fá soninn til að biðjast afsökunar á ódæðisverkinu.  Allt kemur fyrir ekki, sonur hefur ekki minnstu hugmynd um hvað maður segir við fólk þegar maður gerir á hlut þess.  Í stað þess að sjá skömmustusvip á drengnum, þá hlær hann framan í okkur nágrannakonurnar.  Mamman reynir að afsaka arfa slaka hegðun sonarins með að kenna um að hann sé á eitthvað erfiðu“ tímabili“.  Nágrannakonan þekkir vel til þessara „tímabila“ sem börn taka.  Ég bið hana um að sonurinn megi koma til hennar þegar hann sé búin að komast að því, hvað það er sem maður segir við fólk, þegar maður stelur öllum garðverkfærunum úr garðinum hjá nágrannanum.

Skemmst frá því að segja að sonurinn var ekki beint tekinn vetlingatökum, þegar mömmunni hafði tekist að drösla afkvæminu inn í hús, þar sem pabbinn var fenginn til aðstoðar við að tjónka við stráksa.

Upp í hugan kemur vísan „það á að stríkja strákaling og stinga honum ofan í kolabing“ ... hann var nú samt ekkert hýddur, bara VEL skammaður og rætt við kauða, sem fékk að dúsa á stólnum í 5 mínútur (5 ára). Forfeður okkar hefðu nú örugglega bara hlegið að þessum nýtístu uppeldisaðferðum.

Hann skilur nú(vonandi) að þetta er ekki beint hegðun sem við sækjumst eftir að sjá hjá börnunum okkar og til allrar hamingju þá er glottið alveg horfið.  Loforð um að svona ætli hann aldrei að gera aftur verður vonandi haldið.  Nágrannakonan á líka vona á heimsókn frá ungum manni sem ætlar að segja fallega „fyrirgefðu“ um leið og hún rennur í hlað.

Já þessar elskur, yndislegasta fólk í heimi en stundum BARA SVO ÓÞEKK!


....enn hér!

„Mamma! Rassinn á þér er eins og boxpúði, hann er svo mjúkur“ sagði eldri sonurinn eftir að hafa lamið hendinni í rassinn á mömmu sinni.  Einmitt og akkúrat það sem allar konur vilja heyra Wink  Hefði nú einmitt haldið að boxpúðar væru frekar harðir, en hvað um það! 

Matthías minn fékk gistingu á Hringbrautinni dagana 28. apríl til 1. maí.  Litli prinsinn var með fáránlega háan hita og crp rauk upp í 375 (0-10 normalt), hljómaði eins og heiftarleg blóðsýking en ekkert ræktaðist úr leggnum (sem væri líklegasta ástæðan fyrir svo háu crp).  Sýklalyf í æð og allur pakkinn.  Ákvað að henda þessu hér á bloggið þó langt sé liðið, svo ég geti flett þessu upp og munað seinna. 

Lifrarsýnið sem var tekið 1. mars kom eðlilega út, sem er auðvitað frábært þar sem lifrin er frekar leiðinlegt líffæri að eiga við.   Það sem er enn betra er að öll næringin í æð virðist ekki hafa skemmt neitt, en hún keyrir í gegnum lifrina og getur valdið miklum skaða.  Á sama tíma erum við skák og mát og svo sem ekkert markvert annað að ræða.

Gleðilegt að Ísland hafi næstum unnið Evróvisjón, hér á bæ var mikil gleði, þó með  þeim formerkjum að Ísland lenti í 2. sæti og þetta var auðvitað spurning um að „vinna“ eða „tapa“ í Evróvisjón.  Sérstaklega eldri prins var ekki alveg að kaupa að það að vera í 2. sæti væri eitthvað frábært og var heldur skúffaður að „tapa“.   Ég og annað heimilisfólk, eins og aðrir Íslendingar litum þó á þetta sem sigur í Evróinu enda tími til kominn að létta þjóðarsálina, sem virðist vera ein rjúkandi rúst.  „Þegar lífið verður doldið erfitt, þá gerist eitthvað skemmtilegt“. Auðvitað ástandið grafalvarlegt, en á meðan við stöndum í lappirnir, erum heil heilsu  og elskum hvort annað , þá siglum við í gegnum þennan storm eins og aðra.  Ekki gleyma að: „á eftir storminum kemur lognið“, og muna að halda sér fast á meðan á honum stendur!  Kannski barnaleg hugsun, en svona er hún ég, ósköp einföld og barnaleg tuðra með mjúkan rass.

Best að láta staðar numið og enda á einum djók, sem eldri prins sagði mér um daginn.  „Veistu hvar veðurfræðingurinn býr“? ....“í skúr“Grin

Knús, knús og kveðja, Áslaug


Tónleikar

Photobucket

Vögguvísa

Kæru vinir vona að þið njótið en á sama tíma forðist að borða á ykkur gat. Tel við hæfi á páskum að skipta út í spilaranum og setja hið angurværa lokalag disksins (Lögmálsins) sem ber heitið Vögguvísa í spilarann. Það er samið í sumarbyrjun 2008, eftir að formlegar upptökur hófust á disknum. Textinn fæddist við fjallsrætur í Súðavík, þar sem snjóflóðið féll. Við dvöldum þar síðasta sumar í eina viku og hver dagur hófst og endaði á því að ég horfði upp í þetta mikla og volduga fjall. Ólíkt öðrum lögum á disknum þá eru eingöngu tveir spilarar, ég á Wurlitzer (gömul tegund af rafmagnspíanói) og Matti á bassaklarinett og klarinett.

Njótið daganna elsku vinir og gleðilega hátíð

Ps. Á fimmtudag 16 apríl verða tónleikar á Rósenberg sem ég hvet þig eindregið til að mæta á. Flutt verða: slatti af mínum lögum, dass af Matta lögum og slembingur af lögum eftir aðra, þó engin sem krefjast stefgjalda (orðin of gömul til þess). Læt vita nánar!

Knús og kveðja, Áslaug


Heimsganga

Matthías spilaði á fiðlu friðartónleikum í mars og reyndar foreldrarnir líka, en tónleikarnir eru hluti af verkefni sem kallast "heimsganga í þágu friðar".  Helga Óskarsdóttir, kennarinn hans Matthíasar er ein af skipuleggjendum verkefnisins hér á Íslandi.  Víst ég er komin með vídeóæði, þá er best að henda inn klippumyndbandi af þessum tónleikum Smile.  

 


Páskafrí

Páskafrí og það kærkomið.  Vikan verið heldur bissí og stressí en mikil afrek unnin.  Trúbatrixu giggið var geggjað.  Eitt mesta adrenalin kikk sem ég hef lent í lengi.  Afmeyjun á sviði trúbadormennsku minnar, sem tókst líka bara ótrúlega vel.  Hef aldrei verið ein uppi á sviði, bara ég og spila mína tónlist fyrir stappfullan sal af fólki.  Engir stráklingar til að reiða sig á við meðleik, en þetta gat hún stelpan og geggjað kikk, hefði aldrei trúað því.   Átti að vera síðust á dagskránni en fékk að færa mig framar sökum mikilla anna á miðvikudeginum…

…Matthías Davíð fór í lifrarsýnatöku, sem er pínu riskí vegna blæðingarhættu og fékk því gistingu eina nótt á Hringbrautinni.  Hann stóð sig þó eins og hetja enda orðinn öllu vanur í pikki og poti.  Eina skiptið sem hann reyndi mjög lágvær mótmæli var inni á svæfingunni þá sagði hann:”Ég nenni þessu ekki lengur og ætla að fara heim”.  Honum var svo rúllað vakandi inn á skurðstofuna, prinsinn tók þann pól í hæðina að draga sængina yfir haus, en engin tár!  Vaknaði vel á vöknun og lá svo með sjálflýsandi stóru tá tengdan mónitornum fram á næsta dag.  Honum hefur nú reyndar alltaf verið illa við mónitora enda sjaldan þurft að vera lengi í slíkum.  Í þetta sinn gerði hann sér þó grein fyrir að það var ekkert val og fannst þetta besta mál: “Nú get ég séð í myrkrinu með ljósinu af stóru tánni”.  Allt fór vel og engin innvortis blæðing og Matthías kominn heim um hádegi í gær.  Púff og úff og mamman fegin að þetta dæmi sé afstaðið og spennandi að sjá hvort niðurstöður nýtist á einhvern hátt.

…Lúðrasveitin Svanur heldur tónleika í Ráðhúsi Reykjavíkur á morgun laugardag klukkan 16.30, verða örugglega skemmtilegir tónleikar.  Ný-endurstofnað Big band Svansins spilar fyrst á dagskránni sem er afar forvitnilegt.  Nú svo fagna Svansarar árinu um kvöldið með árshátíð.  Gleði og glaumur og reyndar þriðja árshátíðin sem ég fer á í ár.

Góða helgi elskan, hafðu það gott og stórt knús

Þín Áslaug

 


Trúbatrixur

Undercover Music Lovers kynna:

Trúbatrix – Café Rosenberg.
Þriðjudagurinn 31. mars kl.8.00

Trúbatrixur eru mættar til leiks aftur eftir velheppnaða landsbyggðar tónleika í Keflavík í Febrúar þar sem færri komust að en vildu . Nú eru þær mættar á mölina á ný með sneisafulla tónleikadagskrá á Café Rósenberg Klappastígi 25.

Dagskráin er ekki af verri endanum og mikið af frábærum tónlistarkonum koma hér saman á einum stað til að spila frumsamda Íslenska kvenna tónlist . Má þar nefna stúlknasveitina , Pascal Pinon , dúettinn Miss Daisy , Jara ,sem nýverið gaf út tónlist úr leikritinu Dansaðu við mig , og Áslaug Helga sem einnig nýverið gaf út plötuna Lögmálið . Aðrar Trúbatrixur sem koma fram eru Elíza , Elín Ey , Uni , Girl in a dark room og Frumbets . Munu margar þeirra frumflytja nýtt efni í tilefni af tónleikunum, þannig að það verður sannkölluð tónlistarveisla á Rósenberg næsta þriðjudagskvöld!

Trúbatrixur hvetja alla til að mæta og muna að allt það besta í heimi hér kostar ekki neitt !

Dagskráin hefst kl 20.00 stundvíslega og er frír aðgangur !

8:00 Opnunar atriðið 3 raddir (4 jafnvel ;)

8:20 Frumpets

8:45 Miss daisy http://www.myspace.com/missdaisymusic

9:10 Elín Ey http://www.myspace.com/elineyj

9:35 Pascal Pinon http://www.myspace.com/pascalpinon

10:00 Girl in a dark room http://www.myspace.com/girlinadarkroom

10:25 Uni http://www.myspace.com/unnuruni

10:50 Elíza http://www.myspace.com/elizanewman

11:10 Jara http://www.myspace.com/jaramusic

11:30 Áslaug Helga http://www.myspace.com/aslaugh


Trúbatrix er tónlistar hópur og tengslanet sem fagnar þeirri grósku sem á sér stað í tónlist íslenskri kvenna í dag.
 

http://www.myspace.com/trubatrix

vítamín og lag

Komin vika og hef enn ekkert þarft að umræðast um.  Gæti svo sem sagt þér að yngsti unginn hefur líklegast slegið Íslandsmet í lágu D-vítamín gildi.  Kannski ekki sérlega spennandi umræða, en merkileg. 

Ég held ég sleppi fyrirlestrinum um fituleysanleg vitamin og vind mér beint að kjarna málsins, sem er að Matthías er að öllum líkindum með lægsta D- vitamin gildi á öllu Íslandi (doktorinn sammála því).  Matthías mælist 12 en eðlilegt gildi er 45 og yfir.  Nú og hvað er þá til ráða?  Er ekki hægt að gefa honum D - vítamin?  Matthías er búinn að vera að fá D – vítamin í munn síðasta árið, en upptekur ekki efnið, sem er einmitt ástæðan fyrir að hann þarf næringu í æð.  Borðar, borðar og borðar en nýtir bara smá brot og nákvæmlega ekkert af fitu og fleiru ásamt greinilega D- vítamínum.  Matthías er líka búinn að fá D- vítamin í næringunni (í æð) síðasta mánuðinn, en lækkar samt.  Hann er því óformlega kjörinn sá Íslendingur með minnsta D-vítamíngildi í líkamanum. 

Þriðja leiðin er “ blessuð sólin sem elskar allt og flest með kossi vekur”, en þar sem við erum búsett svo óskaplega nálægt Norðurpólnum að þá ríkir hér myrkur megnið af árinu, en þess á milli rignir, snjóar eða norðangarrinn feykir okkur um koll.  Jafnvel um mitt sumar.  Nú væri sannarlega rétti tíminn fyrir okkur að leggja land undir fót og sleikja smá sól í um vikutíma… þ.e ef einhverjum gáfumönnum hefði ekki tekist að kollsteypa öllu draslinu, flýja svo af hólmi og ég og þú eigum að borga reikningana.  Ótrúlega sanngjarnt og ekki einu sinni sénsinn bensinn að fá far með einhverri einkaþotunni núna! 

Annars átti þetta aldrei að verða svona langt, en víst ég er byrjuð, þá á að taka lifrarsýni og útiloka einhvern sjúkdóm, sem heitir einhverju skrítnu nafni, sem ég á eftir að læra.  En það tengist þessari furðulegu stækkun á milta, sem virðist alltaf hrjá drengsa og virðist vera að éta upp blóðflögur sér til skemmtunnar án þess að nein sýking sé í gangi (samt ekkert í neinu mæli miðað við hvað við höfum séð, en samt abnormal).  Elsku litla ráðgátan mín er sum sé það sem hefur aðalega verið á dagskrá hjá mér þessa vikuna.  Nýjasta nýtt sem hann tilkynnir fólki, sem spyr hvernig hann hafi það er: “Ég á að fara í sólbað”.

Ah, best að skipta um lag í leiðinni.  “Stormur”, sem þú heyrðir kannski hér um árið, var endurupptekið fyrir diskinn “Lögmálið”.  Eitt af lögunum sem virðist alltaf fylgja mér og mér þykir hvað vænst um.  Samdi það 2006 ef ég man rétt og fjallar um Storma lífsins.  Við eigum öll storma, bara misstóra.  Við fáum öll smakk af stormi og stormum en í ólíkum formum. Verðum bara að muna að á eftir storminum kemur lognið, svo um að gera að halda sér fast og standa hann af sér!

Góða helgi   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Aslaug

Höfundur

Áslaug Helga Hálfdánardóttir
Áslaug Helga Hálfdánardóttir

Tónlistarspilari

1.Happy family - Áslaug Helga
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband