Blaðrrrr...

Skemmtileg helgi,  fór með tveimur vinkonum út að borða á “Rossopromodoro”, já ég veit gífurlegt surprise.  Sátum og átum og áttum gott spjall.  Þá var ákveðið að halda eitthvert annað, en hvert?  Töltum fyrst inn á stað sem heitir “Boston” lúkkaði eins og þetta gæti verið doldið skemmtilegur staður, en engin laus sæti.  Of gamlar til að standa!, “Ölstofan” sama vandamál, of gamlar til að standa og of mikið af fólki.  “Sólon”, HJÁLP! Fengum sæti, fengum drykk, byrjuðum að tala, aðeins hærra, öskra, heyrðum ekki neitt hvor í annarri.  Ég hef verið í rokkhljómsveit og það frekar háværri hljómsveit, en DJ-inn á þessum stað myndi mala hvað band sem er í hávaðatíðni.  Hlupum út frelsinu fegnar og inn á “Næsta bar”, engin tónlist, sitja, tala, voða notó, vá hvað maður er orðinn gamall! 

Einn svona mömmudjókur sem vert er að muna eftir þessa helgi.  Dóttir mín var að ræða við mömmu sína um ójafnréttið í fjölskyldunni, það væru 3 strákar en bara 2 stelpur.  Henni fannst mamma sín eitthvað treg til að samþykkja að það bráðvantaði eina stelpu í viðbót.  Gefst upp og segir “þegar ég verð fullorðin, þá ætla ég að eignast stelpu, og þá flytjið þið út”! 

Og svo er komin ný vika... Stundum veit ég ekki alveg með mig, húmor eða ekki?, kannski gömul en enn óttalega vanþroska eitthvað!  Þú manst kannski hvað stafsetningaræfingar voru skemmtilegar eða þannig þegar þú varst í grunnskóla.  Langar og leiðinlegar setningar sem stundum eru hálf samhengislausar.  Ég var að lesa upp eina slíka í einum af eldri bekkjunum og ein setningin byrjaði svona…“Tungan milli fljótanna”, “ha” sagði einn nemandinn, “tungan milli fótanna”,“nei! fljótanna” sagði ég og mín auðvitað svo barnaleg reyndi að halda andlitinu og hemja hláturskastið. Bót í máli að mér leiðist allavegana ekki í vinnunni!

Kveðja og eitt stórt knús til þín! 


Tónleikar

Heyrðu!  Ég ætla að bjóða þér að koma á tónleika á laugardag eftir viku, þ.e. 12 apríl kl.17, í sal FÍH Rauðagerði 27.  Skrifaðu þetta nú í dagbókina!  Já, okey, þú vilt kannski vita á hvaða tónleika þú ætlar að mæta?  Þetta eru útgáfutónleikar á disknum hans Matta sax (saxafónleikara), allt frumsamið eftir hann.  Mjög skemmtileg tónlist og ekki bara instrumental, líka nokkur sönglög, sem ég syngSmile .  Það kostar ekkert inn, en þú getur keypt diskinn og allur ágóði rennur til Félags Einstakra barna! Sjáumst!!

Heimur barnanna

Eins og ég hef örugglega einhverntíman sagt þér, að þá eignaðist ég tvíburana mína og 18 mánuðum seinna fæddist Matthías litli.  Þegar svona stutt er á milli, þá eru þau þrjú meira eins og þríburar, heldur en tvíburar og yngri bróðir.  Það er líklegast bara frábært að Matthías sem hefur barist allt sitt líf hefur aldrei fengið neinn afslátt hjá systkinum sínum.  Flestir aðrir dansa í kringum litla prinsinn. “Það er nú ekki skrítið að hann sé frekur, eftir allt sem hann hefur gengið í gegnum” er setning sem heyrist nú ekki sjaldan frá fólkinu í kringum hann.  Duddan sem var tekin af tvíburunum á slaginu 3 ára, hangir enn í munninum á litla prinsinum og er ekkert á förum, þó hann sé orðinn 3+.  Tvíburarnir voru farin að sofna sjálf í sínum rúmum rúmlega 2 ára, Matthías 3+ fær enn mömmu hendi til að klóra og sofna út frá.  Okkur finnst þetta bara eðlilegt. 

Gengið hefur verið að skoða myndir og nýjasta orðið í orðaforðann hjá börnunum sem er allt annar en normal, er orðið “sonda”.  Þau eru að skoða myndir og koma svo öðruhverju og spyrja “hvað er þetta aftur á Matthíasi” (á gömlum myndum), svarið er “sonda”, Já “sonda” svara þau í kór. 

Um daginn áður en ungarnir lögðust til hvílu segir Hálfdán Helgi:”mamma þegar ég var lítill, þá var ég líka með legg”,

“Nei Hálfdán minn (segir mamman), þú varst aldrei með legg, Matthías er með legg af því að hann er alltaf veikur í mallanum sínum”. Þá sem sagt halda þau að þegar maður er lítill, þá er maður með legg!

Hálfdán:  “Er Matthías þá eini sem er veikur?”

Mamman: “Já, hann er eini sem er veikur”

Hjördís Anna: “En ég var einu sinni veik”! 

Í þeirra huga, þá er maður veikur þegar maður þarf að vera heima og er með hita, sem þeim finnst nú ekkert alstæmt, því þegar maður fer svo í leikskólann, þá má maður vera inni og jafnvel velja sér einn til að vera inni með manni. 

Í þeirra heimi er bara eðlilegt að börn séu með legg, tengd við dælu, fái spes næringu, “aftengja Matthías”, “tengja Matthías”, blóðprufur og ýmis fleiri góð orð sem eru bara eðlilegur hluti af tilverunni.  Afhverju ætti “hann” þá að fá eitthvað “special treatment”.

Gleymi því aldrei þegar Matthías kom aftur heim af spítalanum eftir fyrstu og lengstu dvölina sem voru rúmir 3 mánuðir.  Hálfdán Helgi að verða 2 ára segir: “ÞESSI kominn aftur”!

InLoveknús, mamman


Ef þig vantar eitthvað að gera..

Ég á vin sem heitir Jón Geir.  Jón Geir er afskaplega hæfileikaríkur maður, ég held að nærri því allt sem hann snertir verði að einhverju skapandi.  Hann finnur sér alltaf eitthvað nýtt til dundurs, enda á hann frekar erfitt með að sitja kyrr!  Ég held ég sé búin að þekkja hann í nærri 14 ár.  Ég man að fyrst þegar ég kynntist honum þá fannst mér þessi stráklingur sem var uppfullur af upplýsingum um tilgangslausa hluti afskaplega skemmtilegur.  Ekki það að hann er enn mjög skemmtilegur og uppfullur af gagnslausum upplýsingum. Ég man að með fyrstu upplýsingum sem Jón Geir deildi með okkur vinunum  var hversu hratt nákvæmlega Síberíuhraðlestin fer, ég er auðvitað búin að steingleyma hversu hratt hún fer en ég er handviss um að Jón Geir hefur haldið því til haga í heilabúinu sínu.

Í gær var mér boðið í kaffi til Þráins vinar míns.  Síðasta sumar held ég að ég hafi deilt því með þér að hann er ákaflega duglegur að safna dóti og öllu sem viðkemur hans tónlistariðkun og annara sem með honum starfa.  Í umræddu kaffiboði fékk hann nýtt starfsheiti “skjalavörður”, gott nafn á góðan dreng.  Tilefni boðsins var að hitta annan gamlan vin, hann Snorra Hergil, bassaleikarann mikla, sem hefur þó snúið sér að leiklist og uppistandi.  Rokkhundurinn vinur minn bauð upp á kaffi og osta, Snorri fékk hins vegar te að enskum sið, enda búsettur í London.  Aðrir sem staddir voru í boðinu voru Nanna, umræddur Jón Geir og Úlfhildur dóttir þeirra hjóna.  Margt skemmtilegt var spjallað, en aftur að Jóni.

Jón Geir var nýverið tímabundið án allra skuldbyndinga um að mæta nokkursstaðar í vinnu.  Hann sagði okkur söguna af því hvað hann hefði dundað sér við í þessum óvænta frítíma.  Nú hann fór auðvitað á internetið og googlaði símanúmerið sitt og komst að því að þetta væri sama símanúmerið og hjá blómaskreytingarverkstæði í Jerúsalem.  Eftir að hafa fundið bræður og systur um allan heim með sama símanúmer, þá tók við að leit í ýmsum skjalasöfnun og einn merkasti fundurinn var doktorsritgerð í einhverjum Háskóla í Bandaríkjunum sem hafði sama skráningarnúmer.  Mjög svo gagnlegt, því næst tók við að finna hluti með sama serial númer og hvort hann hafi fundið ekki fundið einhverja ryksugu sem deilir með honum númeri.  Þegar hann var væntanlega kominn með leið á að finna samnefnara við sitt eigið númer tók hann númer konunnar sinnar og byrjaði upp á nýtt! 

Þar sem Snorri hefur verið langan tíma fjarri við nám og ýmislegt, þá var það auðvitað spurningin um hvort við hefðum þroskast eitthvað á þessum tíma.  Helsta breytingin er sú að núna erum við flest komin með börn og hvort sú staðreynd hafi breytt okkur til betri vegar.  Við komumst að því að við værum líklegast enn sömu vitleysingarnir, nema hvað að Jón Geir benti á þá áhugaverðu staðreynd að nú gætum við legið í sófanum allan daginn, horft á teiknimyndir og í leiðinni flokkast sem ábyrgir foreldrar sem eyða tímanum með börnunum sínum (burt séð frá því hvort sjónvarpsgláp teljist til merkra uppeldisþátta)!

Alla ævina telur maður sig vera að þroskast. Vonandi, en er það endilega rétt?  Sjálf á ég það ennþá til að stökkva upp á innkaupakerruna og láta mig renna eftir ganginum í búðinni.  Kannski hef ég þroskast örlítið, því núna síðustu ár þá geri ég mér alveg grein fyrir því að svona á maður auðvitað ekki að gera, en held samt áfram þessari iðju.  Hvenær fær maður titilinn “fullorðins”? 

Knús, knús og kveðja, Áslaug 


páskar

Gleðilega páska, vona að þú hafir fengið stórt og gott páskaegg.

Við skelltum okkur í bústað, tvær nætur.  Mikið stuð.  Á skírdag varð reyndar rafmagnslaust og vatnslaust í rúma þrjá klukkutíma.  Allt sló út rétt eftir að “Stundin okkar” byrjaði í sjónvarpinu.  Liðið var nú ekkert of kátt með þetta rafmagnsleysið, prófuðu alla slökkvarana í bústaðnum og urðu doldið pirruð að fullorðna fólkið gæti ekki kveikt aftur á sjónvarpinu.  Þegar uppgötvunin um vatnsleysi kvissaðist út á meðal ungana, þá var engu líkara en þau hefðu verið dregin í gegnum eyðimörkina tímunum saman, svo þyrst voru þau.  Ekki mjólk, ekki djús, nei orðið var vatn, þau þurftu að fá vatn að drekka.  Eins þurfu auðvitað allir líka að fara á klósetið, eftir að klósetkassinn tæmdist.  En gamaldags stemning réði ríkjum.  Þegar ungarnir áttu að fara að sofa kom auðvitað í ljós að ekki var hægt að hlusta á sögu úr tækinu, sem notar rafmagnssnúru, þá var grátið!  Til allrar lukku sló á þeirri stundu inn rafmagnið aftur og þá var fyrsta setningin “nú getum við horft á Stundina okkar”.  Mikil dramatík!

Alltaf gaman að leika úti í sveitinni. Þá hefst fjörið við að klæða alla í alklæðnað, tekur smá stund svona.  Við gerum stundum grín að því að Hálfdán Helgi sé alveg eins og hann afi, nafni sinn, alltaf pínu lengi að hlutunum.  Þegar komið var að Hálfdáni (sko Helga, ekki afa) að fara í öll úti fötin, þá er alltaf eins og mamman sé með kartöflupoka sem hreyfir hvorki legg né lið og hengslast ofan á hnénu á mömmu sinni.  Mamman var orðin nett pirruð á syninum sem sýndi engin merki þess að ætla að aðstoða við að koma sér í fötin.

Mamman: Hálfdán minn, stattu í lappirnar

(Hálfdán lippast niður á gólfið)

Mamman (nett pirruð): Hálfdán minn, hvernig gengur þér eiginlega að klæða þig í leikskólanum? (þar eiga þau að klæða sig sjálf)

Hálfdán: Bara vel!

Mamman: Nú, það væri nú gaman að sjá það!

Hálfdán:  Þú verður þá bara að fá þér vinnu í leikskólanum!

Það er nú ekki annað hægt en að knúsa svona gorma og pirringurinn horfinn út í veður og vind.  Sigurlín föðursystir og Dóri maðurinn hennar komu með hestana sína úr bænum.  Við fórum í hesthúsið, sem er á Selfossi að skoða stóðið.  Rosa fjör.  Eigandi hesthússins hún Ásta bauð öllum að fara á bak og voru krakkarnir teymdir stóran hring.  Allir þvílíkt kátir og hápunktur ferðarinnar.

Páskadagur og leytin að páskaeggjunum bar árangur.  Eins og venjulega smakkar Hjördís Anna aðeins, en finnst svo að venju nammi bara frekar vont.  Bakkabræður sitja hins vegar með súkkulaði úti um allt, kampakátir með risabros á vör!

Var í vinnunni stuttu fyrir páska, þá kom auðvitað klassíska spurningin “afhverju heitir þetta skyrdagur?”, Júdas var auðvitað orðinn gaurinn í símaauglýsingunni og á teikningum af síðustu kvöldmáltíðinni sat Jesú með lærisveinunum kringum borð þar sem á var teiknaður risastór kassi merktur Dóminos pitza!

Páskaknús, Áslaug


.....

Tengdasonurinn

Í gær fékk ég tilkynningu um að Hjördís Anna mín væri búin að eignast kærasta.  Mamman varð hálf hvumsa yfir þessari vitneskju að bráðum 5 ára dóttirin væri komin með kærasta.   Fékk þær upplýsingar að nýji tengdasonur minn sé líka að verða 5 ára, heitir Villi og er í leikskólanum.  Mamman reyndi nú að segja dótturinni að hann væri nú kannski ekki kærasti hennar, bara svona vinur.  Mín hélt nú ekki, þau voru kærustupar, þau nefnilega dansa saman og lita!

Misskilningur

Matti var eitthvað að stússast í bókhaldi fyrir pabba sinn.  Guðrún Thelma, spyr mig afhverju pabbi þurfi að vinna?  Ég svara “til að skatturinn taki ekki afa”.  Eitthvað misheyrist ungfrúnni og svarar skelfingulostin “ætlar skrattinn að taka hann afa?”

Þess má geta að hún er 8 ára og á sko engan kærasta, strákar eru nefnilega ógeðslegir!  Ætli mamman verði ekki bara kát þegar Hjördís Anna fer á það stig.

Svo er það spurningin um breytta tíma, ekki man ég eftir því að nota orðið kærasti, kærasta og kærustupar í leikskóla!


Trallalala

Nei, nei var bara svo nálægt en það dugði eigi.  Já ég er að tala um óskina mína.  Var sum sé ein af tveimur söngkonum sem áttu séns í stórhlutverk, í stuttu máli – hin vann!  En hvað um það, eins og ég segi alltaf svona sénsar eru bónusar í lífinu.  Hefði verið gaman, en er kannski ekki það sem skiptir máli!

Á fimmtudag voru teknir upp flest allir grunnar á plötuna mína, í studíói FÍ H.  (grunnar:trommur og bassi).  Það var doldið skemmtilegt og tilviljanakennt.  Ætluðum eiginlega bara að taka upp trommur, þar sem Jón Geir gat mætt, en höfðum engan bassaleikara.  Labbar ekki Ingólfur Magnússon bassaleikari inn um dyrnar og við djókum aðeins hvort hann sé laus í session (session: upptökur).  Hann er mættur til að spila í einhverjum prófum hjá flínka fólkinu í FíH, en annars bara laus.  Þar með spilaði hann og algjör snilli (enda með próf upp á það Smile).  Held þetta verði fínasta plata, bara doldið stolt af stelpunni að eiga efni á heila plötu og rúmlega það.  Sel kannski ekkert í neinum bílförmum, en þú kaupir kannski eina! 

Árshátíðin um daginn var skemmtileg.  Tók reyndar smá pirringskast yfir fólksfjölda 1780manns, hver rakst í annan, svaka stuð.  En skemmtiatriðin voru skemmtileg og hljómsveitin Buff auðvitað löngu komin með doktorsgráðu í dansiballleik.  Hugsað fyrir öllu m.a. að hafa bara einn bar fyrir 1780 manns, svo fólk hefði þurft að leggja á sig mikla vinnu til að ná ofurölvanum.  En Kópavogsbúar eiga hvort sem er nóg af vatni svo þetta reddaðist!  Kópavogsbúar eru líklegast líka mjög sportí þenkjandi þar sem í fljótu bragði get ég talið upp 6 líkamsræktarstöðvar í bænum (en þetta var nú bara svona út-úr-dúr).

Fórum eina nótt í bústað um síðustu helgi, það var gaman.  Gaman líka hvað ungarnir eru orðnir sjálfstæðir og maður getur setið og lesið blöðin, hlustað á tónlist og svona almennt tjillað á meðan þau leika.  Af sem áður var, þegar það var eiginlega meiri vinna að fara eitthvað með þau, og maður var sveittur á að elta liðið og æpa “passaðu þig”,”nei! eeeeeekkki” o.s.frv.

Reyndar spurning hvort þau séu að verða of sjálfstæð?  Eina nóttina í síðustu viku vaknar Matti við að Matthías er að læðast út úr rúminu klukkan 4 að nóttu og heyrir frammi Hjördísi Önnu kalla á Hálfdán Helga:  “Hálfdán, þú kannt að opna hliðið, förum niður og náum í Carolinu” (aupairin okkar).  Sæll, já hver vekur annan og allir saman nú!  Liðinu var auðvitað smalað upp í rúm aftur! Púff!

Fórum í leikhús á sunnudag á Skilaboðaskjóðuna, æðislega skemmtilegt og frábær tónlist. Fannst við doldið eins og nýsloppin úr torfkofanum, hjónin, afinn, tribbarnir, stóru tvö hans Matta og besti vinur hans Hálfdáns Helga með í för. Einn tveir og nú allir í röð, leikskólinn mættur, varið ykkur og farðu frá!!  Allir skemmtu sér konunglega, síðast í gærkvöldi sagði Matthías (sko litli) “í nótt ætla ég að dreyma um tröllkallinn, en hann verður að steini”! – Hæfileikarík börn sem sjálf stjórna draumum sínum, eins og ég hef áður komið að.

Þá er munnræpu ársins lokið að sinni, kveðja og knús í krús

Áslaug


Hvað er svo að frétta?

Nú ég fór í leikhús, það var skemmtilegt, sá Vígaguðinn í Þjóðleikhúsinu á laugardagskvöld.  Hóf reyndar kveldið á pasta áti á Caruso, svo það gat varla klikkað!  Fékk mér Carbonara, aftur, já, já, alveg eins og rúmri viku fyrr, en það var á öðrum stað.  Enda var það alls ekki eins!  Já, aftur að leikhúsferðinni.  Þetta var ótrúlega fyndið og skemmtilegt leikrit með auðvitað pínu drama undiröldu.  Leikararnir: öll frábær!  Mæli með þessu ef þú ert í stuði til að hlæja!

Á sunnudag var rokkarakaffi í úthverfi.  Nokkrir rokkarar framtíðarinnar léku sér saman.  Jón Geir og Nanna komu með Úlfhildi og Þrási metalbolti með Elísabetu.  Svo þegar stóðið mitt bætist við, þá slagar nú upp í hálfa leikskóladeild.  Allir léku sér fallega saman.  Skrítið hvað lífið breytist, nú hittumst við ekki á Gauknum og drekkum bjór, nei nú hittumst við í kaffi, nokkrir úthverfaplebbar, með börnin og bleyjurnar.

Matthías minn svona líka flottur þessa dagana.  Ég og doktorinn djókuðum aðeins með að blóðprufunum hefði líklegast verið skipt út og væru frá einhverju öðru barni, svo flottar voru þær. …Furðulegur djókur það en svona svartan húmor fær maður af þessu basli!

Þetta er svona það helsta, nema auðvitað ofurdugleg að mæta í ræktina og ætli kílóin fjúki ekki  með síðasta vetrarrokinu og mín orðin svona líka spengileg í vor! Hm, kannski betra að vera ekki of kokhraustur, sjáum hvað setur. – Tja, það versnar allavegana ekki!

Framundan er árshátíð starfsmanna Kópavogsbæjar á laugardagskvöldið (vá, súrt og allt of langt nafn).  Klikk gaman í fyrra og verður vonandi ekki síðra þetta árið.  Þetta er risa, risa árshátíð og haldin í Fífunni.  Hlakka til!

Kveð í bili, knús, Áslaug


Ósk

Ég á mér eina ósk, fullkomlega sjálfhverfa ósk, óskin gæti orðið að veruleika, nú eða runnið út í sandinn.  Það er eins og segir, að maður má samt að sjálfsögðu ekki segja frá óskinni.   Nú ætla ég að prófa doldið nýtt, af því þið eruð nú öll svo miklir vinir mínir hér!  

Þú lest  þessa setningu upphátt: "Ég vona að  óskin hennar Áslaugar rætist" (má alveg segjast með smá tilþrifum).  

Svo ef óskin mín rætist, þá skal ég segja ykkur hver óskin var (og kannski líka ef  hún rætist ekki)!

Takk kærlega, knús á þig og þína,

kveðja Áslaug (doldið steikt, en maður veit aldrei, kannski gæti þetta virkaðWink)


Draumar

Já, sumir draumar er æðislegir, aðrir ekki eins spennandi, en getur maður valið sér draum fyrir nóttina?

Hálfdán Helgi sagði í gærkvöldi: Nú vil ég fara að sofa og ætla að dreyma um ofurhetjur!

Apakötturinn Matthías sem gerir og segir allt eins og systkinin bætti við: Og ég ætla að dreyma um Spiderman!

Ég er ekki alveg búin að ákvaða hvað ég ætla að dreyma í nótt, kannski: ég að borða pasta og drekka rauðvín, helst á einhverjum heitum, rómó stað, veit ekki alveg...

En hvað ætlar þú að dreyma í nótt?

Knús, Áslaug 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Aslaug

Höfundur

Áslaug Helga Hálfdánardóttir
Áslaug Helga Hálfdánardóttir

Tónlistarspilari

1.Happy family - Áslaug Helga
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband