Útlaginn

Við gerðum eins og hinir, enda hlaut að koma að því að hjarðeðlið léti á sér kræla.  Brunuðum eins og þúsundir annarra af stór Reykjavíkursvæðinu út úr bænum, til að njóta náttúrunnar.  Já, njóta náttúrunnar í hóp, eins og hundruðir aðrir.  Leggja bílnum þétt upp að næsta bíl, helst þannig að nágranninn komist ekki út.  Sitja svo og glápa inn í næsta garð, sjá karlinn grilla og kerlinguna öskra á krakkana!  Vagn við vagn eða bíll við bíl, tjöldin sem voru enn gjaldgeng þegar ég fór síðast í útilegu árið 2002 voru eins og einmana strá á stangli, kannski svona 3 og alveg pottþétt einhverjir útlendingar!  Hjólhýsi, pallbílar og fellihýsi eru húsakostur landsmanna á flótta úr stórborginni, meira að segja tjaldvagninn er orðinn sjaldséður.  Tjaldsvæðið, flóttamannabúðir ríka fólksins á Íslandi.  Hver ofan í næsta koppi.  Allt krepputal lætur maður sem vind um eyru þjóta, enda 90% búðar búa á jeppum eða þaðan af stærri trukkum.  Leit að minnsta kosti ekki út fyrir að almenningur láti bensínránið á sig fá  og taki rútuna, búinn að selja allt fína dótið og  hafi tjaldið úr Rúmfatalagernum með í för.

Annars hin skemmtilegasta útilega fyrir utan fulla gaurinn sem reif í mig á kvennaklósetinu, þar sem ég stóð með  Matthías minn í fanginu og benti honum pennt á þetta væri jú kvennaklósetið!  Til allrar lukku komu aðsvífandi tvær ungar konur sem björguðu mér og Matthíasi og höfðu meiri burði í að rökræða við ofurölva aum…!  Hjartað í mömmunni barðist þó hratt, sem hélt að hún væri mætt í fjölskylduvænt umhverfi en ekki  á Eldborgarhátíðina frægu!  Fékk líka sirka 6 klukkutíma frá tónlistarferli Bó Halldórssonar, allt frá Brimkló til dagsins í dag, beint í æð frá einhverjum nágrönnum neðar í skóginum.  Sannfærði börnin að þau ættu að ímynda sér að þau væru að hlusta á útvarp Latibæ fyrir svefninn.  Bó er góður og allt það, en 6 klukkutímar, hefði alveg verið til í smá variasjónir á tónum.  Hann á greinilega mjög digga aðdáendur, sem hlusta bara á Bó og ekkert annað!  Eins var ég eilítið hissa á hamagangi nokkurra húsabúa, sér í lagi kannski fólkinu sem vakti alla þá sem reyndu að sofa, seint um nóttina, með hrópum og köllum enda búin að týna barninu sínu!  Já, við Íslendingar alltaf svo penir eitthvað!

Ég læt þó ekki mitt eftir liggja og eftir að hafa fengið gistingu í fellihýsi þá læt ég sko ekki draga mig inn í tjald aftur. Nei-hei, þurfti þó að fá ansi fullkomnar lýsingar hvernig apparatið væri hitað upp og hvort ekki væri örugglega gasskynjari í hýsinu.  Pínu svona vantraust enda mín ekkert sérdeilis of hrifin af miklum tækninýjungum.  Átti sjálf örugglega með stærri rútum á svæðinu og hefði örugglega staðið fyrir mestum hávaða ef ég hefði ekki gleymt gítarnum og rauðvíninu heima.  Enda kannski nóg að muna td. bara það að telja börnin inn í bílinn!

Fyrsta útilegan afstaðin og hlakka til að ári…

Knús, Áslaug útlagi!


Nú er hægt að hlusta...

...á "Lögmálið" hér í spilaranum á hliðinni! Svo ef ykkur finnst það skemmtilegt, þá má alveg senda póst eða hringja og biðja um lagið á rás 2, svo það verði nú kannski spilaðWink ..bara svona af því þú ert svo mikill vinur minn!

Annars allir hressir nema Matti, sonurinn hann Hálfdán Helgi skellti saxinum hans í gólfið í dag, í smá æðiskasti og allur neðri hlutinn vel beyglaður.  Hann er þó of ungur til að pabbinn gæti rekið hann að heiman og svo gaf hann líka pabba sínum blóm í sárabætur!  Pabbinn spilar víst ekki í stúdíói á næstu dögum eða þar til viðgerð hefur farið fram.  Sum sé allt í blóma og nóg af blómum!

Knús elskurnar, kveðja Áslaug 


Lögmálið

... Jæja elskan, hlusta á Rás 2, Poppland, Heiða, kl.10 (eða rétt rúmlega það) á morgun mánudag!!

Lögmálið, fyrsta barn af 9 tilbúið að fæðast!  

knús, Áslaug 


Morgunstund á laugardegi

Í gær lærðu 4 börn að maður veiðir ekki kóngulær með grjóti.  Þríburagengið var að leika í garðinum ásamt besta vininum, þegar Hálfdán Helgi kemur hlaupandi inn.  “Mamma, mamma, Atli meiddi sig og það kemur rautt úr hausnum á honum”.  Mamman hleypur út á harðaspani og sér besta vininn alblóðugan í framan.  Mamman bisar við að þurrka blóðið til að sjá hvaðan það kemur og í leiðinni að fá nánari upplýsingar um málið.  Blóðið kemur úr nefinu og svo er augljóst að það er gat efst á hausnum.  Mamman hringir í mömmu hans Atla og svo er brunað af stað 1,2,3,4, inn í bíl og niður á slysó, þar sem lítill kútur var mjög glaður að hitta mömmu sína, því á svona stundum er mamma alltaf best!  Málið var víst að liðið var að veiða kóngulær eða aðalega kóngulóarvefi (sem eru reyndar að gera mig brjálaða hérna úti) og Atli miðar með grjóti og kastar, en það vill ekki betur til en svo að steinninn lendir beint á honum sjálfum.  Þannig að öll 4 lærðu það að maður veiðir ekki kóngulær með grjóti!  Sár reynsla og verður gaman að sjá hversu lengi maður man þessa lexíu, kannski þangað til á morgun.  Mamman fékk auðvitað hrikalegan móral að hafa ekki staðið vaktina og horft stanslaust  á börnin leika sér, en maður er farin að treysta liðinu betur þegar gengið er orðið stærra og meira sjálfbjarga, hefur opna hurð og kíkir svo hvort ekki sé allt í góðu (var einmitt rétt nýbúin að kíkja).  Hugsaði svo með mér að það hefði verið skárra að mínir gormar hefðu fengið grjótið í hausinn heldur en að barn í heimsókn endi upp á slýsó! – En svona er víst lífið slysin gera oftast ekki boð á undan sér.  Til allrar lukku var skurðurinn ekki mjög stór og hægt að lima hann saman!

Oft er í Umræðunni “ systkini langveikra barna”.  Heimurinn lítur auðvitað kannski aðeins öðruvísi út svona utan frá séð, en mér hefur alltaf fundist að tvíburarnir hafi ekkert orðið þannig séð útundan og farið á mis við svo marga hluti við það að eiga langveikan bróður.  Sé kannski stundum hlutina sem gætu virst argasta óréttlæti td. að tvíburarnir þurfa að klára matinn sinn en Matthías ræður hvað hann borðar mikið… sem auðvitað byggist á því að hann fær líka næringu í æð en þau ekki!  Auðvitað sér maður líka að hann hefur fengið að komast upp með hluti sem tvíburarnir hafa fengið skömm í hattinn fyrir og er þá orðin ef pent skal orðað “pínu ákveðinn ungur maður”, eins og ein fóstran í leikskólanum orðaði það svo skemmtilega “Matthías er alltaf svo góður svo lengi sem hlutirnir eru eftir hans höfði”!  Mamman sá þó vel gott dæmi þess hvar skóinn hefur kreppt þegar tvíburarnir fóru á sundnámskeið.  Það má telja það á fingrum annarar handar hversu oft tvibbarnir hafa komið ofan í sundlaug, þannig að þegar sundnámskeiðið hófst voru þau eins og hræddir ungar, sem forðuðust að fá vatnið framan í sig.  Ástæðan:  Matthías má ekki fara í sund, af því hann er með legg (lína sem gengur inn í stóra æð og út úr brjóstinu á honum, á stærð við þykkan merkipenna), og vegna sýkingarhættu, þá má hann ekki fara í sund.  Matthías segir reyndar sjálfur að þegar hann verður 5 ára eins og tvíburarnir, þá ætlar hann að fara í sund!  Sum sé af því hann má ekki fara í sund, þá fer enginn í sund.  Mamman var því rosalega stolt af þessum duglegu tvíburum sem köfuðu og létu sig fljóta í lok námskeiðisins!

Loksins er komið að því, fyrsta lagið af disknum mínum er tilbúið!  Svo er bara að spíta í lófana við að klára hin, svo diskurinn láti sjá sig einhverntíman á haustdögum!  Á mánudag fer ég í Popplandið til hennar Heiðu og  “Lögmálið” heyrist opinberlega í fyrsta sinn.  Allir að hlusta á Heiðu í Popplandi á mánudag!  ..Svo hendi ég þessu hérna inn á bloggið!! 

Sólin skín, knús og kveðja, Áslaug


Flakkarinn

Þá er búið að taka 10 daga törn í flakk um Vestfirðina og Strandirnar.  Dvöldum eina viku í Súðavík, þar sem skoðaðir voru helstu búsetustaðir vestfirðinga, Ísafjörður, Flateyri, Suðureyri, Bolungarvík o.s.frv.  Fjöllin himin háu, sjórinn, kyrrðin og hin magnþrungna orka, mikil sálarfæða þar!  Keyrðum svo yfir á Strandirnar, lentum í Djúpavík, þar sem við dvöldum í góðu yfirlæti 2 nætur á hótelinu þar.  Tókum nokkra tóna í tankinum (besta sánd í heimi), skoðuðum verksmiðjuna og sigldum með trillunni út voginn.  Magga verður nú að fá eitt knús HÉR fyrir frábærar móttökur!  Stoppuðum í Trékyllisvík, en þar spilaði hljómsveitin Kalk dansiböll 3 sumur í röð sem er eitt af því minnistæðasta frá þeim flakk árum.  Í Norðurfirði óðu börnin berfætt út í sjó á sandströndinni, sem er örugglega ein fallegasta strönd á Íslandi.. mjúkur sandur og í sól og blíðu færðu sólarlandafíling (fyrir utan mun magnaðara landslag). Strandirnar veita mér vellíðunnar tilfinningu, sálarheill og sálarfrið, ótrúlegt að vera þarna eins og í ævintýraheimi.

Það kom að því að Matthías litli færi á flakk um landið.  Fengum næringuna senda fyrst til Danmerkur og nú á Ísafjörð, já fólkið í næringarblöndun fá sko miklar þakkir fyrir það.  Og allt gekk eins og í sögu.

…Talandi um sögu, þá fóru börnin að safna blómum handa mömmunni í Súðavík.  Mamman setur blómin í vasa. Guðrún Thelma er að laga blómin í vasanum, þegar Matthías litli birtist með fleiri blóm.  Mamman segir:  Matthías settu blómin í vasann hjá Guðrúnu Thelmu.  Matthías horfir hugsandi á mömmu sína og réttir mér aftur blómin.  Mamman segir aftur: settu þau í vasann hjá Guðrúnu Thelmu.  Matthías röltir í áttina að Guðrúnu Thelmu og hefst handa við að troða blómunum í vasann (peysuvasann)… það var doldið mikið hlegið!

Svo mætir maður aftur bæinn og næst á dagskrá er smá jazzí gigg á Café Cultur á Hverfisgötu.  Þeir sem spila eru Matti sax og Pálmi Sigurhjartarson og ég þen raddböndin.  Nú er um að gera að taka smá rölt í bænum í sumarblíðunni á FIMMTUDAGSKVÖLDIÐ , setjast svo inn á KAFFI KULTUR, kl. 22:00, fá sér eitthvað gott að drekka, spjalla og hlusta á lifandi tónlist!  Kósí stund og njóta lífsins, ekki satt?  Vonandi sjáumst við!

Sumarknús og kveðja, Áslaug


Blúshátíð

Nú ef þú ert á ferðinni nálægt ÓLAFSFIRÐI um helgina, þá er ég með frábæra hugmynd fyrir þig!  Kíkja á blueshátíð.. já, já, já þar verður margt sniðugt á dagskránni m.a. við... M-gospel project og munum flytja skemmtilegt prógramm á föstudagskvöldinu.  Væri mikil undrun og gleði að sjá þig! Kveðja, Áslaug

..og þá var kátt í höllinni!

Jibbí skribbí og fjölskyldan kættist ógurlega!  Gleraugun hans Hálfdáns Helga dúkkuðu upp á Lyngbystation, ferðasöguna verða gleraugun víst að eiga fyrir sig.   Ýmsum vöngum hefur verið velt yfir ferðalagi gleraugnanna, en alls óvíst hvaða saga mun vera rétta sagan.  Eitt er þó víst að enn eru til skilvísir Danir og fyrir það þakkar móðurhjartað, sem nærri felldi tár fyrir hönd sonarins.  En nú þarf engin tár og sárin í garð fáráðsins gróin um heilt!

Höfum það afskaplega gott í höllinni og borðað ógrynni af mat, góðum mat og mikið af yndislegum ítölskum mat.  Dýragarður, bakkinn og Bon Bon land hafa verið skönnuð ásamt lestum og hraðbrautum.  Eins og í fyrra þá flúði íkorninn Rauðtoppur ágang Íslendinganna, en ég sá honum bregða fyrir um daginn, þar sem hann kíkkaði eftir því hvort óhætt væri að snúa heim í Önnu garð.  Svo var þó ekki og ég held að hann hafi skotist burtu bölvandi!

Kveðja og eitt stórt knús, Áslaug


Déskotans dóni í Danmörku

Rupplað og rænt í ræningjaborg!

Nú ætla ég að segja þér sögu sem við sem búum í sveitamenningunni á Íslandi búumst eiginlega ekki við að sé til.

Finnst þér í lagi að ræna staf af gamalli konu? En að ræna gleraugum af 5 ára barni?  Kannski bara almennt ekki í lagi að ruppla og skruppla!

Við vorum á leiðinni út úr lestinni á Lyngbystadion, þegar Hálfdán Helgi öskrar upp yfir sig “gleraugun mín, gleraugun mín!”  Einhver arfa sniðugur rekst í hann og kippir af honum gleraugunum!!  Við berumst með þvögunni út úr lestinni, öll nema Matti, sem verður eftir í lestinni til að aðgæta hvort þeim hafi nokkuð verið hent inn aftur.  Því í allri mannmergðinni sjáum við ekkert hvert rugludallurinn fer, en Hálfdán Helgi staðhæfir að maður í bláum jakka hafi rekist í hann og eins og fyrir töfra, þá hverfa gleraugun!  Við hin stöndum á brautarpallinum og ég leita þar og á lestarteinunum, því oft er hlutum stolið og svo hent skömmu síðar.  Maður spyr sig, hvað ætlar þrjóturinn að gera við barnagleraugu?   Matti  fer á endastöðina í Hillerod, þar sem lestin tæmist sem gefur gott svigrúm til frekari leitar að gleraugunum.  Matti hittir frekar súran róna, sem er að safna flöskum, en er alls ekki hress á svip og spyr Matta “að hverju ert þú að leita?”, Matti svarar því til að hann sé að leita að gleraugum sonar síns.  Róninn kættist við það, að Matti væri ekki að safna flöskum á hans svæði og áfram leituðu þeir, Matti að gleraugunum og róninn að flöskum. 

Hvergi fundust gleraugun og hefur þjófnaðurinn verið tilkynntur til lögreglu hér á Lyngby svæðinu.   Það versta er að Hálfdán Helgi sér ekkert voðalega vel án þeirra!  Já, allt er nú til, en að stela gleraugum af 5 ára barni hlýtur að fela í sér samviskuleysi af hæstu gráðu.. nú eða allavegana nettgeggjaða bilun!

Hálfdán Helgi sagði að kannski hefði hann bara verið fátækur og vantað gleraugu og þá væri hann eiginlega ekki að stela – ….tja það er auðvitað ein afsökunin fyrir bófana, eins og barnaskarinn segir. Það voru nefnilega BÓFAR og RÆNINGJAR sem stálu gleraugunum hans Hálfdáns Helga!

Sendi kveðju og gleðilegan þjóðhátíðardag

Knús, Áslaug


Amm'li

Tvibbarnir mínir eru 5 ára í dag.. Mér finnst eiginlega BARA furðulegt að liðin séu svona mörg ár!

Fimmtudagskvöld – á morgun og trió Matta sax leikur fyrir gesti og gangandi á kaffi Culture á Hverfisgötu klukkan 22:00.  Um er að ræða jazzprógramm og ég gaula nokkur vel valin lög.  Verður örugglega mjög skemmtilegt, Matti á saxinn, Rafn á gítar og Stefán á hammond, doldið spes samsetning en þeim mun forvitnilegra að mæta!  + Frítt inn!!!

Alltaf svolítið hressandi þegar hinir ýmsu sumarstarfsmenn mæta til leiks um borg og bý.  Fór í Hagkaup og ætlaði að kaupa skó á gengið.  Fann númer sem passa á tvibbana en vantaði á stubbinn.  Lít eftir afgreiðslu og vind mér að tveimur ungum stúlkum sem eru önnum kafnar að raða kössum og kjafta “eigiði þessa Spiderman skó í 24?”,  önnur svarar “nei, ég held ekki”, ég: ”en eigiði einhverja aðra íþróttaskó í 24?”  Hin svarar:  “alveg örugglega, einhversstaðar í hillunum”!  Ok!!  Mín gafst upp á að leyta og fannst þetta heldur fyndin afgreiðsla!

Annars bara Danmörk aftur á næsta leiti..

Knús í krús, kveðja Áslaug


... ... ... Ýmislegt

Jæja, búin að fara til Danmerkur.  Þetta var hin skemmtilegasta reisa ásamt 7 skemmtilegum ferðafélögum!  Áslaug og strákarnir virða fyrir sér Kaupmannahöfn og stræti þeirrar vinalegu borgar.  Ferðin hófst hlæjandi og endaði, allir pínu þreyttir en hlæjandi.  Skoðaðir voru tveir skólar sem bjóða upp á rythmiska tónlistarkennslu.  Mest var þó setið svolítið og talað, eiginlega talað svo mikið að ekkert okkar þarf að tala meira í svona mánuð!  Borðað…  Fyrsta kvöldið var borðað á stað sem heitir “Sá litli feiti”, fengum 5 rétta surprise máltíð – alveg geggjað.  Annað kvöldið var svo afmæli hjá Önnu systur og þau hjónin klikka sko ekki á matseldinni… Italian, mmmm.  Þriðja kvöldið var svo borðað á “Vesúvíusi”… Italian líka og klikk gott!  Já, mikið stuð og mikið gaman!  Allir voða góðir vinir, kannski ég segi nánar frá þeirri ferð síðar.

Hálfdán Helgi tilkynnti fyrir stuttu að hann ætlaði að verða trúður, tók upp þrjá steina og byrjaði að joggla.  Steinarnir fóru auðvitað allir aftur fyrir hann, þar sem Matthías rölti í humátt á eftir honum.  Matthías slapp þó naumlega undan skothríðinni og Hálfdáni Helga fínlega bent á að trúðar notuðu venjulega ekki steina til joggla með… það gæti jafnvel verið pínu hættulegt.  Þó ekki verra að vita af því að maður eigi von á frímiðum í sirkusinn í ellinni!

Matthías Davíð fór í 3 og hálfs árs skoðunina í gær.  Hjúkrunarfræðingur frá heilsugæslunni kom og lagði fyrir hann allskyns þrautir og spurningar.  Matthías Davíð sem er talinn afbragðs gáfaður í familíunni sýndi sína verstu hliðar.  Sagði ekki orð fyrsta hálftímann, horfði undrunar augum á hjúkkuna og rak út úr sér tunguna þess á milli eins og hann skyldi ekki orð af því sem hún sagði, td. Hvað heitir mamma þín? Matthías-þögn og tungan út.  Foreldrarnir horfðu forviða á þetta barn sem hvorugt hafði nokkurntíman séð á ævinni.  Eftir hálftíma var ákveðið að gera pásu og fara aðeins fram með hann.  Foreldrarnir reyndu að sannfæra Matthías um að hann yrði að tala við hana og þá svarar Matthías loksins úr þagnarbindindinu “Nei, ég er að fara heim”.  Mamman brá á það ráð að ljúga að syninum að ef hann talaði ekki við hana þá gæti hann ekki farið á stóru deildina í haust.  Það virkaði, Matthías settist inn og skoraði fullt hús stiga.  Aftur: “hvað heitir mamma þín”? Matthías: ”Áslaug Helga Hálfdánardóttir” og foreldrarnir önduðu rólega aftur. 

Sjónprófið kom þó á óvart eins og með Hálfdán Helga þegar hann fór í þetta sama próf!  Já, ótrúlegt en satt en hann sér bara frekar illa frá sér.  Ég var svo heppin að eiga tíma fyrir Hálfdán Helga hjá augnlækninum í dag og breytti og sendi Matthías í staðinn.  Matthías er með +9 á öðru auga og +7,5 á hinu auganu.  Þetta er ótrúlegt en allavegana veit maður að þetta er genetískt í karllegg, Matti næstum blindur á öðru auganu, pabbi hans líka, Baldur Snær stóri hans Matta, Hálfdán Helgi og nú Matthías Davíð.  Kannski eins gott, því ef Matthías væri sá eini, þá myndi maður tengja þetta við dularfulla sjúkdóminn sem enginn veit hver er.  En gleraugu eru góð uppfinning!

kveðja, Áslaug


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Aslaug

Höfundur

Áslaug Helga Hálfdánardóttir
Áslaug Helga Hálfdánardóttir

Tónlistarspilari

1.Happy family - Áslaug Helga
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 1326

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband