... og árin líða

Ömmu systir mín er 98 ára.  Í gær voru merk tímamót í mínu lífu, ég varð ömmu systir.  Ég hef náð ömmu systur minni, nema hvað að nú er hún líka orðin langalangömmu systir.  Systir mín varð amma, mamma varð langamma og ég ömmu systir, við fögnum allar.  Ég held ég fíli þetta bara vel, já nýtt hlutverk.  “Ömmu systir”!   Já, hljómar mjög svona fullorðins.  Ætli ég verði þá ekki að skipta út og drekka sherrí, kannski  læra brids og skella mér til Kanarí.  Já, Áslaug ömmu systir er bara í stuði!

Ert þú ekki annars bara líka í stuði?

Kær kveðja, Áslaug ömmu systir


Fiðluferð

“Mamma, það er alveg jafn gott að læra á fiðlu eins og að vera í Gerplu (fimleikum), er það ekki?”  Og  mömmunni nísti inn að hjartarótum og svaraði “já-há, það er sko alveg eins gott”!  Fórum saman og horfðum á fiðluhóptíma, Matthías æðislega rogginn með sig sat og horfði á hina leika ýmsar kúnstir.   Hann var margoft spurður “hvað ert þú gamall?” Af það því stubbur er svo lítill eftir aldri þá hefur  fólk líklegast gert ráð fyrir að mamman hafi logið til um kennitöluna til að koma honum í tónlistarnám.  Hann er að verða 4 ára, en í stærð er hann eins rúmlega 2 ára.  Hef svo sem áður sagt að þó ekkert annað væri, þá hefur hann nú ekki alveg genin með sér, maður myndi alls ekki segja að pabbinn væri tröllvaxinn og mamman er löngu hætt að bíða eftir boðunarbréfinu frá módelsamtökunum.

Allavegana fyrstu tvo einkatímana á Matthías ekki að mæta, bara ég og pabbinn .  Ef við erum fljót að læra, þá fyrst fær Matthías að koma.  Okkur fannst þetta frekar fyndið,  Sumir fara á dansnámskeið, en við erum að fara að læra á fiðlu saman.  Vorum að spá í að hittast í strætó á leið í fiðlutíma, eins og í gamla daga, jafnvel hringja í mömmu og bjóða henni  með í fyrsta tímann.

En Matthías minn er svaka spenntur og  heldur því reyndar fram að hann kunni núna á fiðlu.  Honum  finnst hann svo stór (þó ekki sé hann hár) og kom með þá snilldarhugmynd að skilja bílinn eftir og taka strætó heim úr fyrstu ferðinni í tónlistarskólann.  Já, það hefði sko verið fullkominn dagur, fiðla og strætóferð!

 

Kveðja, Áslaug fiðla 


Þrási sagði klukk!

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina.

Afgreiðsludama í Bíóborginni (sálugu) – Frítt í bíó og nóg af nammi, kannski ástæðan að ég nenni aldrei í bíó

Yfirleiðbeinandi í unglingavinnunni – Alltaf gaman að bossast með fólk og gera ekki handtak sjálf!

Tónlistarkennari – Að vinna við það sem manni finnst skemmtilegt!

Mamma – Erfiðasta, en jafnframt skemmtilegasta starfið

Fjórar bíómyndir sem ég held upp á.

Sound of music – Alltaf jafn skemmtileg

James Bond – já, já bara flest allar

Rómantískar gamanmyndir – algjör sökker fyrir svoleiðis léttmeti

….skrítnar balkanskar myndir

Fjórir staðir sem ég hef búið á.

Garðabær

Arhus

Reykjavík

Kópavogur

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:

Vóóó! Hvar á ég að byrja

Grace Anatomy

Desperate Housewifes

Sex in the city

Stelpurnar

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum :

Köben – hvergi betra að vera en hjá Önnu systur

Ísrael – kórferð

Japan – ég hata sússí

Sikiley - romance

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg :

Ef ég fer í tölvuna þá kíki ég á:

G-mailið

mbl.is

facebook

Vinir mínir sem blogga

 
Fernt sem ég held uppá matarkyns:

Pasta

Humar

Pasta

Humar

Fjórar bækur sem ég hef lesið oft:

Litlu Smábarnabækurnar

Ronja ræningjadóttir

Tónlistar uppflettidót

Sömu nótnabækurnar aftur og aftur

Fjórir bloggarar sem ég ætla að klukka:

Matti sax 

Þóra Guðmanns

Jón Ingvar

Sibba - Sibbulina 


Fjórir staðir sem ég vildi helst vera á núna :

Í Köben hjá Önnu systir

Heima er best

Hiti, pasta, rauðvín og romantic

Rokk og ról

 

 


Lokk og lól

Fyrsta lúðrasveitarferðin afstaðin og komin heim í kotið!  Þetta var hin skemmtilegasta ferð með skemmtilegu fólki.   Ferðin hófst á skemmtilegri klukkutíma seinkun, þegar allir voru ný-sestir inn í vélina sökum þoku í Frankfurt, það var ákaflega hressandi snemma á fimmtudagsmorgni.   Bad Orb þýski smábærinn sem við höfðum aðsetur í var ákaflega lítill og sætur og sá ég aldrei meira en nokkurra kilómetra radius af bænum sökum mikillar dagskrár.  Á morgnana var vaknað við lúðrasveitartóna, helst svona þrjár sveitir að spila í einu, og á kvöldin sofnað út frá lúðratónum.  Eins gott að ég hafði bara gaman að, nema sveitinni sem var skipuð bassatrommu og piccaloflautum…þvílíkur viðbjóður!  Íslendingunum var fagnað eins og rokkstjörnum í heimi lúðrasveitanna og stemningin var eins og á útihátíð.  Hafði sér í lagi gaman af að útlendingarnir voru ekki alveg að kaupa það að “Garden party” (Mezzoforte) væri íslensk tónsmíð.. þeir þekktu lagið og það var sko ekki íslenskt!  Alltaf lærir maður eitthvað nýtt en líklegast voru furðulegustu umræðurnar sem ég lenti í um klarinettublöð (blöð sem notuð eru til að blása í tækið), ýmsa tækni, tegundir og aðferðir tengdar þessum litla hlut!  Ég hafði á orði að ég hefði bæði all oft farið í kórferðir, sem og verið í rokkhljómsveit, en skemmtanaúthald Svansara (lúðrasveitarmeðlima) sló þessu öllu út! .. segið svo að lúðrasveitir séu ekki rokk! ..eða þá að ég sé orðin svona gömul!   

Að öðru, varð ákaflega kát eftir símtal sem ég fékk, sem innihélt þær upplýsingar að Matthías Davíð hefði fengið pláss í Tónlistarskólanum í Kópavogi að læra á fiðlu.  Gleðin var mikil af því hann má ekki vera í neinu svona íþróttatengdu og finnst alveg ferlega leiðinlegt að systkinin fara á sundnámskeið, íþróttaskóla, jafnvel ballet og núna síðast í fimleika, en hann fær aldrei neitt svona.  Ég var því himinlifandi að litli stubburinn minn fengi loksins eitthvað sem væri “hans”.  Mesta tjallensið er þó að mamman þarf líka að læra á fiðlu og við vera saman í þessu og æfa okkur!

Veit að margir eru forvitnir um hvernig stráksi minn hefur það, þar sem ég hef ekki mikið deilt upplýsingum undanfarið.  En 7-9-13, þá hefur hann ekki leigt herbergi á Hringbrautinni síðan í janúar og ekki orðið “veikur” síðan í febrúar.  Þetta er að sjálfsögðu met miðað við mánaðafjölda.  En nú er komið haust með öllu sínu kvefi og flensum, svo mín ætlar ekki að vera of kokhraust til að storka ekki örlögunum (því hann bregst auðvitað ótrúlega furðulega við slíku áreiti).  Að öðru leiti er hann eins, flottur og klár, en fær sína næringu í æð, núna annan hvern dag, sem er gígantísk framför frá daglegri notkun!  Leyndarmálið er þó alltaf það sama, engin veit neitt, ætlum að sjá veturinn keyrast í gang og stefnum svo á Boston til áframhaldandi leytar!

Jæja, pæja eða pey(j)i, knús í krús og verum dús

Kveðja, Áslaug


Meira kaffi!

Og nú heldurðu að ég sé að ljúga!  Föstudagur, stoppaði bílinn, já, já, já með kaffið og er að tala í símann, hætti að tala í símann og samhæfingin eitthvað biluð, slekk á símanum með annarri og sný hinni á sama tíma og kaffið yfir löppina á mér.. og sætið ..já og út um allt…ái mjög vont og ég veit, hálfviti!  Sumir læra aldrei af reynslunni!

Sunnudagur og ég er að gera klárt til að aftengja Matthías, dreg saltvatn upp í sprautu og dreg nálina úr saltvatninu og sprautan snýst í hendinni á mér, tekur smá snúning og lendir “Ái” beint í löppinni á mér!  Mikið skelfing var þetta nú vont og risa marblettur!  En hvers konar illaháttur er þetta.

Virðist sem mér takist að klúðra einföldustu hlutum eins og að drekka kaffi þessa dagana!

Frúin er á faraldsfæti á næstunni og ætlar að fara í fyrstu lúðrasveitarferðina á ævinni.  Held ég sleppi því nú samt að spila með enda kann ég ekki á svona lúður, svo það yrði nú bara enn ein skelfingin.  Hyggst hins vegar sitja og drekka rauðvín og klappa fyrir hinum.. Gott plan!  En hvers vegna ætli frúin sé á þessu flandri?  Jú, hann Matti er að taka við sem stjórnandi í lúðrasveitinni Svan og kerlingin verður auðvitað að sýna samstöðu og heimtar að fara með í frí til útlanda… henni finnst það nefnilega svo skemmtilegt, heimsækja þýskaland, þó ekki geti hún drukkið bjór, borðað bratwurst (hvernig sem það er skrifað) eða snitzel!  Þetta verður ákaflega áhugavert fyrir kellu!

Kveðja og knús, á fyrsta degi nýrrar viku.. Óheillakrákan ég! 


kaffi og með því...

Já með sanni má segja að ég sé óttalegur illi.  Hellti óvart kaffi yfir hausinn á mér í bílnum!  Ég ætla greinilega aldrei að læra þetta, að maður á ekki að drekka kaffi um leið og maður keyrir bíl.  Hvað þá að lyfta hendinni  með kaffibollanum í til að vesenast í hárinu á sér.  Sem betur fer var þetta nú ekkert mikið, smá hárnæring og andlitsbað, en þetta var sumsé alveg ókeypis heilræði dagsins í dag frá mér til þín!

Annars voða ánægð með menningarlega eldri son minn, sem hlustar á tónlist eftir tónskáldið John Williams áður en hann leggst til hvílu á kvöldin!  Svo heyrir maður hinum megin við hillurnar, sem skilja að herbergi Hálfdáns Helga og Matthíasar, leikhljóðin við tónlistina, geislasverð og öll skrítnu hljóðin, sem virðast eingöngu geta komið úr börkum karlmanna.  Hef einmitt oft pælt í því af hverju stelpur geti ekki leikið eftir hljóð úr hríðskotabyssum o.s.frv. – gæti sjálf ekki bjargað lífi mínu við að reyna þetta.  En sumsé Star Wars æði hefur gripið um sig og varð minn maður himinlifandi að finna tónlistina úr Star Wars í hillum heimilisins og Benedikt búálfi og félögum skipt á ógnarhraða út í samræmi við nýjan lífstíl.  

Kveðja, Áslaug illi

 


Bara svona bla, bla

Föstudagur og ein enn vikan á enda.  Búið að vera brjálað að gera tónleikar og spilerí, ásamt því að klára litla sæta gæluverkefnið mitt, sem verður vonandi tilbúið í lok september!  Jafnframt er vinnan byrjuð, oh, ég er að vinna með svoo skemmtilegu fólki, þannig að ekki dugar að sósjalísera bara í vinnunni heldur líka utan vinnutíma.  Tvíburarnir byrjuð í fimleikum, sem þykir ákaflega sportí og skemmtilegt.  Aumingjans Matthías spyr “hvenær má ég fara í fimleika”? og svarar svo sjálfur “Þegar ég er 5 ára, þá ætla ég í fimleika”!  Vonum að það gangi upp!  Annars svo sem ekkert markvert nema að ég braut fánalögin og vonast til að sleppa við sektir og handtöku, en fann fána á gólfinu inni í bílskúr.. ég veit, ég er algjör krimmi!

Góða helgi elskan, knús í krús, kveðja, Áslaug


Jaaaazzzzzzzzz

Þá er Jasshátíð Reykjavíkur að hefjast og margt spennandi í boði.  Ætla nú samt bara að benda þér á Organ annað kvöld (miðvikudagur) kl. 22:00, M-bluesproject og tvö önnur bönd!  Frábært band (hef ekki heyrt í hinum en örugglega frábær líka) og ég gestasyng í einu lagi.

Þetta voru skilaboð dagsins, og kveð að sinni með kærri kveðju til þín frá mér! KNÚS! 


Menningarnótt og stuð

Þá er komið að árlegri árshátíð hjá dixiebandinu Öndinni á Menningarnótt, staður: Hressó, stund:20-22 og þér er boðið!  Að tónleikum loknum verður skrúðganga ásamt götuleikhúsi um miðbæinn kl. 22:30, þar sem ég þen gjallarhorðnið.  Ég verð að segja þér í trúnaði að þetta eru tónleikar sem þú bara mátt ekki missa af, alltaf stuð og stemmari í þessu bandi… elskan! 

Á hverju ári eru einhverjar mannabreytingar í  ár spila: 

-          Matti sax spilar á klarinet

-          Sævar á trompet

-          Freysi trompet spilar á básúnu

-           Magga klarinet spilar á saxafón

-          Össur Geirs básúnuleikari og stjórnandinn mikli spilar á túpu

-           Ingólfur Magnússon bassafantur spilar á banjó

-          Jón Óskar á trommur

-           Stefán Henrýsson á píanó

………..og að vanda gaula ég eitthvað í takt, svo mæta velvaldir gestir í slagverksdeildina!

 

Stuð - stuð - stuð!

 

Vinkona mín sem er tónmenntakennari var stödd í sumarbústað ásamt stórfjölskyldunni.  Sonur hennar 7 ára kemur til mömmu sinnar og spyr: “Mamma hvað er aftur G-strengur”, vinkonu minni bregður örlítið en ákveður nú samt að upplýsa soninn: “Það eru svona konunærbuxur með bandi upp í rassinn”.  Sonurinn sem leit út eins og eitt stórt forviða spurningarmerki svarar mömmu sinni:” Núúú!, ég hélt að að það væri strengur á svona nótnastreng”! (enda hafði sá hinn sami lært á blokkflautu veturinn á undan)

Skemmst frá því að segja að vinkona mín, tónmenntakennarinn,fékk nokkrar háðsglósur frá familíunni.

…og þetta fannst mér fyndið!

 

Knús, knús og sjáumst vonandi á menningarnótt!! 


Ég á 'ann!

Hvenær rennur upp sá dagur að við fáum að kjósa menn  (konur eru líka menn) og málefni í stað flokka?  Ég yrði allavegana kampakát.  Spurning um að valdasjúkafólkið í Ráðhúsinu skelli sér í heimsókn í leikskóla borgarinnar og fái ráðleggingar hjá yngstu borgarbúum hvernig maður á að hegða sér.  Það er fólkið sem er alveg með það á hreinu hvernig hlutirnir eiga að vera.  Nú og ef að það dugar ekki til, þá er hægt að fá inn þroskaþjálfa og sálfræðinga til að fara yfir stöðuna með valdasjúkafólkinu og það fyrir miklu minni pening en allir fínu ráðgjafarnir taka fyrir sín störf.  Annars þá ætlar hún ég svo sem ekkert að blanda sér neitt í pólitískar umræður.  Þetta var bara svona hugmynd!

Allt með kyrrum kjörum á helstu vígstöðvum hér í Kópavoginum, stórt helgarknús til þín frá mér!

Kveðja, Áslaug

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Aslaug

Höfundur

Áslaug Helga Hálfdánardóttir
Áslaug Helga Hálfdánardóttir

Tónlistarspilari

1.Happy family - Áslaug Helga
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 1326

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband