Innskot

Ef þú ert á ferð um stræti Kaupmannahafnar og heyrir mikil læti, þá er það annað hvort löggan með sírenurnar á eftir Falun Gong meðlimum í skrúðgöngu eða stórfjölskyldan úr Kópavoginum á ferð.  Þú rennur á hljóðið!

- reyndar eru líka nokkrir Jazzarar í bænum, en það heyrist nú sjaldnast mjög mikið í þeim Wink

Med kærlig hilsen fra Denmark

Áslaug 


DRAZL

Júní  alveg að klárast og ég sem ætlaði að socialisera eins og vindurinn við vinkonur - skoða nýjar íbúðir þeirra sem hafa flutt, mæta í kaffi, fara á kaffihús,  allt saman fokið út í veður og vind.  Já tíminn líður og það hratt, þegar maður finnur sér verkefni.

Það hefur nefnilega verið ráðist í bílskúrstiltekt.  Fjórir veggir, fullir af kössum og ýmislegt drasl, sem dreyfir sér langt út á gólf.  Og hvað ætli sé nú í öllum þessum kössum.  Já, það er nú það!  Þvílíkt og annað eins drasl.  Það er nú hreinlega ekki alveg í lagi með mann að safna svona hlutum og óskapnaði, sem maður mun aldrei, já ég segi ALDREI, koma til með að nota. 

Reyndar var þetta svolítið eins og að fara í leik sem heitir “Hvað kemur upp úr kassanum”.  Gömul föt, gamall sími, stakir bollar, og svona er endalaust hægt að telja. Af hverju var ég að geyma þetta drasl?  Ég var þó himinlifandi glöð og fegin þegar ég fann möppuna með öllum prófskírteinunum mínum.  Akkurat, það var nú eitt dæmið, afhverju var hún í einhverjum kassa inni í bílskúr.  Þetta er td. hlutur sem á að passa vel og geyma á stað sem maður veit hvar er.  Ég fann nú sitthvað fleira sniðugt svo sem.

Þráinn vinur minn á kassa.  Hann veit líka alveg hvað er í kassanum.  Við vinir hans höfum stundum gert grín að því að ef svo illa færi að heimurinn hreinlega færist, þá mundi einn hlutur líklegast verða eftir sem myndi sanna tilvist mannkyns á jörðinni.  Sprengjuheldi kassinn hans Þráins. Ég hef reyndar aldrei fengið að sjá kassann og einnig veit ég að það sem fer í kassann fer aldrei þaðan út aftur.  Í kassanum eru söguleg gögn um tónlistarferil Þráins frá upphafi.  Hann á nánast allt, sem viðkemur þeim böndum sem hann hefur starfað með.  Hann geymir þar með sögulega staðreynd um tilvist mína, þar sem við höfum starfað saman frá árinu 1994.

Ég sagði Þrása um daginn af bískúrstiltektinni og m.a. því að ég hefði fundið útgáfusamning fyrir geisladiskinn “Pilsner fyrir Kónginn”, sem var gefinn út undir lok síðustu aldar – ég sá að hann varð pínu grænn (af öfund), því þennan merka pappír á hann ekki í kassanum sínum.  Ætli samningnum sé þó ekki betur komið í kassanum góða, en hjá mér.. held reyndar að ég sé búin að týna honum aftur, en fullviss þó að því plaggi var ekki hent.  Mér datt í hug að ég gæti kannski búið mér til svona kassa eins og vinur minn á.  Ég fann einn lítinn kassa og ofan í hann fór Mosstock bæklingurinn, sem var útihátíð sem hljómsveitin K.X spilaði á í Danmörku, eftir sigurinn á Rokkstokk hljómsveitakeppninni 1997. (Hm. Ætli Þráinn eigi þann bækling).

Fátt fleira fann ég merkilegt í þessari tiltekt.  Bílfarmarnir hafa farið síðustu dagana í Sorpu.  Jú, ég fékk reyndar að bera augum, pennasafnið hans Matta, en sem krakki safnaði hann pennum. Pennarnir fóru allir í Sorpu ásamt gamalli skjalatösku sem hefur hýst pennana síðustu 20 ár.

Nú er þó allt að komast í smá skipulag.  Magnið af nótum sem ég þurfti að sortera, kórnótur, einsöngsnótur, píanónótur…  Allt er komið í fína kassa (IKEA ) og meira að segja merkt, hvað er í þeim!

Ég held að eftir standi í það mesta einn fjórði af því dóti sem hefur dagað hérna uppi.  Ég hef flutt fjórum sinnum á síðustu 10 árum.  Afhverju er ég enn með þetta drasl í eftirdragi?  Nú á ég einungis eftir að fara í gegnum jólaskrautið.. púff, það verður stuð!

Smá heilræði til þín, frá mér: Henda, henda, henda og henda aðeins meira!

Kveðja Áslaug drazlari 


Smá infó

Kæru vinir, fjölskylda, kunningjar og aðrir lesendur.

Á daga mína hefur svo sem ekkert markvert drifið, nema að húsið hefur daglangt verið þrifið.  - Hvers konar sumarfrí er nú það, rugl!

17 júní var þó ansi skemmtilegur, með skrúðgöngu og öllu.  Söng svo nokkur lög með dixiebandinu Öndinni niður í bæ, við ágætis undirtektir að vanda, enda voða jollí band þar á ferð.  Þess má geta að eldri sonurinn var ekki alveg að kaupa það að foreldrarnir ætluðu að spila með einhverri önd! .. það mátti búa til nokkra djóka úr því.  Vona að þið hafið átt  góðan og skemmtilegan þjóðhátíðardag.

Nú, ég fékk mér vinnu í dag.  Færði vinnubúðirnar upp um þrjú hverfi.  Engar drastískar breytingar svo sem.  "Svipuð vinna, annar skóli".  Ég náði sum sé ekki að vera atvinnulaus nema í rúmar tvær vikur.

Öll hersingin (ég, Matti, tvibbar, Matthías og Guðrún Thelma) fórum á 50 ára afmælishátíð barnaspítalans í dag.  Mikið fjör og mikið gaman.  Skoppa og Skrítla, töframaður, Stuðmenn að ógleymdum kynninum honum Felix - sem Matthías var mjög ánægður með - "Ég vil sjá Gunna" - "Hann heitir Felix" - "Já, ég vil sjá Gunna" sem sagt Matthíasi fannst Felix skemmtilegastur!  Doldið magn af sykri fór í magann, bolir og bílar fengnir með heim og allir skrautlega málaðir.  Meira að segja ísbjörninn Hringur var tekinn í sátt, en Matthías hefur hingað til ekki verið of sáttur við það furðudýr.  Sem foreldri þá var þetta ein best heppnaða skemmtun sem ég  hef farið á með ungana.  Allir höfðu nóg að gera allan tímann. - Á meðan ég þarf ekki að hlaupa í hringi, þá er ég afskaplega sátt. - Til hamingju með afmælið barnaspítali!

Takk fyrir að vera dugleg að skrifa í athugasemda dálkinn - þið eruð sannir vinir, að nenna að gleðja litla hjartað og vonandi haldið þið því áfram og vonum að fleiri taki við sér.

Stórt knús og kveðja

Áslaug 


Röfl

Sumarið er komið, uh nei, íslenskt sumar er komið.  Nældi mér í kvef og leiðindi, en annars lítið að frétta. 

Komin í sumarfrí, uh nei, ég er bara komin í alsherjar frí, þar sem ég sagði upp í vinnunni og er lítið farin að gera í að finna mér nýja. "Góðar" hugmyndir alltaf vel þegnar.  

Matthías Davíð er enn að súpa seiðið af sýklalyfjagjöf í æð, svo meltingin er ekki alveg upp á það besta.. ekki það að hann hafi nokkurn tíman melt eitthvað af viti... hann var bara svo fínn í mm hux, já apríl og maí (ef ég man rétt).

Já og svo er ég afskaplega forvitin hverjir eru að dandalast á þessari ómerkilegu síðu.. endilega setja inn eins og eina athugasemd. - finnst svo gaman að fá svoleiðis!

Tvibbar í stuði og flest gengur sinn vanagang

Ég og Þrási rokk erum að byrja að æfa doldið skemmtilegt prógramm.. kemur vonandi í ljós síðar, þar sem við erum kannski ekki duglegasta fólk í heimi að leyfa öðrum að heyra afrakstur af tónlistar iðkun.. þetta er samt voða lítið rokk!

Spilaði með Dixiebandinu í veitzlu um helgina, alltaf er það nú jafn skemmtilegt!

Orðið allt of langt af röfli um ekki neitt..

Kveðja Áslaug 


Nokkuð sátt!

Ég brá mér af bæ eitt kvöldið í vikunni og kannaði stöðuna á bæjarlífinu.  Það sem kom mér mest á óvart var að reykingarbannið, sem ég var á móti, er alls ekki svo slæmt.  Í fyrsta lagi, þá reykir maður miklu minna.  Það er betra loft og fínt að sitja inni á stöðunum og maður kemur heim án þess að lykta eins og skúnkur (svona extra mikið).  Og það er fínt að fara aðeins út fá sér "ferskt" loft og jafnvel hitta ný og gömul andlit.  Ég held ég sé þ.a.l. bara mjög sátt við þetta reykingarbann - þó ég sé s.s. ekkert sérstaklega hlinnt boðum og bönnum.  

Ég pældi samt aðeins í því, að þetta var í miðri viku og ekkert rosalega mikið af fólki á ferli.  Ég veit ekki alveg hvernig staðirnir ná að halda utan um þetta um helgar, þegar hellingur af fólki er rápandi inn og út.  Svo þarf auðvitað að vera með öskubakka og það doldið marga, annars verður þetta allt saman auðvitað frekar ógeðslegt.

Kveðja Áslaug 


Smá tónlist

Hæ!

Setti lög í spilarann...

Stormur - lag og texti eftir mig, fjallar um storma lífsins. "Við eigum öll storma í lífinu, þeir eru bara mis stórir", við vitum líka að á eftir storminum kemur lognið, svo maður verður bara að halda sér fast á meðan honum stendur. - demó upptaka

I belive in you - lag og texti eftir Matta.  Samið í fyrstu umferð á spítalanum með Matthías (Matthías innan við 3 mánaða).  Lagið hét upphaflega 6 am, vegna þess að Matti vaknaði klukkan 6 að morgni, opnaði tölvuna og lagið kom bara.  Stuttu seinna kom svo textinn.  Bæði lag og texti komu s.s. eins og sending, mjög spes!  - Upptaka frá Burtfarartónleikunum (ómixað - alveg hrátt)

Come on - lag eftir Matta og texti eftir Matta og Candice Ivory.  Mér finnst þetta lag ótrúlega skemmtilegt og funky. - Upptaka frá Burtfarartónleikunum (ómixað - alveg hrátt)

Góða skemmtun

 

Ps.  dóttir mín er alltaf að prjóna rúmið sitt á morgnana

- hún er sem sagt að búa um rúmið, en af einhverri ástæðu kallar hún það ALLTAF að PRJÓNA, sama hvað henni er sagt oft að það heiti að "búa um rúm" - Mér finnst þetta allavegana óstjórnlega fyndið! 

Kveðja Áslaug 


4 ára í dag

4. júní 2003 kl. 10.06 og 10.07 komu tvíburarnir mínir í heiminn.  Ótrúlegt að liðin séu 4 ár! 

 


dramatísk sveitaferð

Á hvítasunnudag lagði stórfjölskyldan í ferð upp í sumarbústað.  Þar var hamast við ditta að, mála bústaðinn og slá grasið.  Allir voru saman komnir til að vinna.  Amma, afi, frænkur og frændur.  Sumir höfðu mætt á föstudeginum, þannig að þegar við mættum var svona eitthvað pínu dútl eftir.  Krakkarnir gerðust útlagar og mættu bara inn til að sofa.  Að flestu leiti var þetta venjuleg sumarbústaðarferð.

Á mánudeginum ber þó til tíðinda.  Um hádegisbil finn ég að Matthías er óvenju þreyttur og við setjumst saman eins og svo oft, hann fær sér duddu og klórar hendina á mömmu sinni, að venju.  Ég tek utan um magann á honum og finn að hann er allur blautur.  Lít niður og sé að þetta er blóð, ríf upp samfelluna, allt í blóði og fatta strax hvað hefur gerst.  Leggurinn hefur rifnað.  Mamman öskrar auðvitað „LEGGURINN“ – „SÍMANN“, ríf upp plásturinn yfir leggnum, held honum uppi og í fáti reyni að stoppa blæðinguna.  Hringi í Helgu systur og segi „LEGGURINN ER FARINN Í SUNDUR OG ALLT Í BLÓÐI“.  Helga hringir á heilsugæsluna á Selfossi og segir að við séum á leiðinni og læknirinn þurfi að klemma legginn með  „Pjang“(rörtöng – hef ekki hugmynd hvernig það er skrifað), til að stoppa blæðinguna.   Frá Selfossi fór Matthías sína fyrstu ferð í sjúkrabíl, niður á Bráðamóttöku, þar sem bundið var fyrir legginn. 

Matthías var ótrúlega góður með sig þegar þangað var komið.  Þegar hann heyrði einhvern gráta sagði hann „ÞESSI ER NÚ EKKI DUGLEGUR HJÁ LÆKNINUM“.   Sú setning gleymdist hins vegar þegar setja þurfti upp nál hjá prinsinum – barðist duglega, en gekk þó vel.  Þá var hægt að taka blóðprufur og gefa sýklalyf í æð.. þar sem það hafði verið opið beint inn í æðakerfið.

Matthías  var svo tjékkaður  inn á barnadeildina – ekki í fyrsta sinn og líklegast ekki það síðasta.  Á þriðjudag fór herra Matthías svo í svæfingu og fékk sér nýjan legg.  Þangað til fékk hann vökva í nálina.  Matthías var yfir sig kátur að losna við nálina, þegar búið var að planta nýjum legg í brjóstholið.  Nú var aðal setningin  „ÞESSI ER AÐ GRÁTA , ÞVÍ HANN ER EKKI MEÐ LEGG“ – og átti þá við að hinir þyrftu að vera með nál í hendinni.

Á miðvikudag fórum við svo heim, með nýjan legg !  Og lífið heldur áfram sinn vanagang í Ólátagarði. 

Líklegast verður þetta fyrsti og síðasti leggur, sem límdur verður saman með tonnataki á Landsspítalanum.   Því það virkar greinilega ekki!  - Að þetta yrði svona mikið drama gat enginn séð fyrir.  Það var spurningin um að prófa að líma legginn eða setja hann í svæfingu, aðgerð og skipta um legg.  Svo Matthías var eins og oft áður fyrstur til að prófa eitthvað nýtt.

Límið hefur hins vegar líklegast brennt legginn, því skurðlæknirinn sagði að hann hefði verið allur í tætlum.

Kveðja Áslaug 


26. maí

Hún á afmæli í dag..Whistling

Elsku Anna systir – Til hamingju með afmælið!  Það er ferlega leiðinlegt að geta ekki verið með þér í dag.  Eiga notalega stund í garðinum án sokkabuxna, leika í kofanum og hugge sig doldið í Danmörkunni.  Vonandi muntu eiga góðan dag og gleðileg veitzluhöld í kvöld!

Leggurinn var límdur saman á fimmtudaginn, og gekk vel.

Helga systir segir að þegar eitthvað skemmist, þá notar Sigurjón (eiginmaður hennar og mágur minn) tonnatak til að laga það sem laga þarf.  Fjölskyldunni  fannst því frekar fyndið að þegar leggurinn bilaði, þá mætti ég  galvösk með límið hans Sigurjóns upp á spítala.  Læknirinn hrósaði líminu og sendi þakkir.  Takk Sigurjón - algjört ofurlím !

Óska eftir heitara veðri! 

Annars er voða fallegt veður í dag.  Verst að hitastigið virðist ekki alveg samræmast því að það sé lok maí mánaðar – en kannski segir maður þetta á hverju ári.  Svona er Ísland í dag!

Kveðja Áslaug


Hitt og þetta

Ég fór á bókamarkað í haust.  Eins og gengur og gerist kaupir maður slatta og svo liggja þær í hrúgu mánuðum saman.  Tíminn til að eiga stund með sjálfum sér og bók er nefnilega kannski ekkert gígantískur.  Ég sá að þarna hafði ég keypt ýmsa titla td. bók sem heitir „Græn börn“, og getur orðið forvitnileg lesning.  Titillinn einn og sér fær mann til að fantasera um hvort bókin sé í rauninni um „græn börn“, bókin gæti líka verið uppeldisrit vinstri – grænna, sem er kannski ekki svo langt frá sannleikanum.   Ein bók kallaði þó á mig meira en aðrar og það var bókin „Ótuktin“ eftir Önnu Pálínu Árnadóttur.  Ég mælist til að þeir sem ekki hafa lesið bókina geri það.  Að takast á við lífið og erfiðleika á þann jákvæða hátt sem hún gerði, ætti að vera okkur hinum fyrirmynd.  Mögnuð bók.  Ég byrjaði að lesa og gat ekki hætt fyrr en bókin var búin.

Annars er allt fínt að frétta úr Ólátagarði.  Reyndar komið gat á legginn hans Matthíasar þ.e. ytra hulstur leggsins.  Létum kíkja á það í dag og var ákveðið að kaupa tonnatak í Byko.  Tveir læknar sannfærðu mömmuna að það væri sniðug hugmynd.  Leggurinn verður sem sagt límdur saman með tonnataki  á fimmtudag! 

Annað markvert:  Matthías skallaði systur sína á föstudag. 

Hálfdán Helgi gerði tilraun með að vera syngjandi íþróttaálfur, flaug á hausinn, lennti á horni og munaði engu að það kæmi gat – slapp naumlega.

Matthías búinn að vera í fínu formi og laus við dæluna þriðja hvern dag og gengur vel!

Kveðja

Áslaug


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Aslaug

Höfundur

Áslaug Helga Hálfdánardóttir
Áslaug Helga Hálfdánardóttir

Tónlistarspilari

1.Happy family - Áslaug Helga
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband