jólalag

Nú styttist í jólin, 16 dagar stendur framan á Fréttablaðinu.  Af því tilefni er við hæfi að setja 1 jólalag í spilarann.  Lag og texti eftir mig og hvað heldurðu, já, sungið af mér!

Þröstur vinur  okkar var svo vinsamlegur að eyða tíma í hana mig og taka upp lagið sem og auðvitað að spila gítarinn inn.  Þess má geta að hann var að klára upptökunám í London og brilleraði þvílíkt, hæstur í skólanum.. – til hamingju með það Þröstur!

Jón Geir trommar (enda snillingur), Óli Kristjáns tók bassann (líka mikill snillingur) og Matti spilar á rhodes og orgel (en hann er auðvitað líka snillingur).  Takk strákar, skulda ykkur bjór!

Kveiktu nú á spilaranum og njóttu…

Knús, Áslaug


Afmæli í dag

Matthías Davíð er 3 ára í dag.. hvernig fer tíminn að því að vera svona fljótur að líða?

Alltaf stuð!

Matthías Davíð og Hjördís Anna löbbuðu sér fram úr svefnherberginu á laugardagsmorgun og tilkynntu að eitthvað hefði “bara dottið”. Við nánari athugun kom í ljós að þetta “eitthvað” var gardínustöngin úr járni, með gardínunum á og festingin öðru megin í veggnum.  Atburðarrásin er enn fremur óskýr.  Annað hvort hefur þessum elskum dottið í hug að hanga í gardínunum, en Matthías á það til að telja sig vera apaunga og hoppar upp á hluti.  Nú, eða að þau hafa hreinlega togað ansi hressilega í gardínurnar.  Mamman varð nú ansi reið, þegar hún horfði  á tvíeykið glottandi yfir þessu frumlega og skemmtilega uppátæki.  Mamman varð eiginlega kannski meira hrædd en reið vegna þess að stöngin, sem er úr JÁRNI, hefði auðveldlega getað dottið ofan á hausinn á systkinunum.  Glottandi tvíeykinu var alveg sama enda góðu dagsverki lokið.  Lofuðu þó að gera þetta ekki aftur. HM.

Gormurinn hann Matthías var ekki af baki dottinn þennan dag.  Að loknum kvöldmat stendur hann upp á stól, eitthvað að gormast og dettur fram fyrir sig .  Við erum að tala um risa skurð á ennið.  Blóðið var svo mikið að erfitt var að sjá hvort hann hefði meitt sig á fleiri stöðum, munnurinn allur í blóði, öll fötin.. já, já, bara út um allt.  Þegar ég hafði náð að þurrka í burtu blóðpollinn kom í ljós að þetta var sem betur fer bara ennið.  Smá panik, en Matthías  heimsótti slysavarðstofuna í fyrsta sinn og saumuð 4 eða 5 spor.  Læknirinn sagði að taka ætti sauminn á föstudag og ætlar Helga frænka að gefa Matthíasi saumatöku í afmælisgjöf, en hann á einmitt 3 ára afmæli þann dag! 

Annars vonast ég til að komast til Akureyrar á morgun.  Sit hér með hálsbólgu og te.  Matti er að fara að saxast með Sniglabandinu á fimmtudagskvöld á Græna Hattinum.  Mín ákvað að fá að koma með, enda missti ég af útgáfutónleikunum í Borgarleikhúsinu.  En nú á að gera sér glaða 2 daga, hafa það náðugt, fara út að borða og eitthvað fleira skemmtilegt, sem hlýtur að vera hægt að gera á Akureyri. 

…sjáum hvað setur

Risaknús úr Ólátagarði

Kveðja Áslaug

 

ps. Þeir sem eru að senda mér eitthvað á facebook - ekki móðgast, ég kann ekkert á þetta og er ekki búin að ákveða hvort ég nenni að læra á þetta.  Pósturinn minn fullur af sniðugum facebook tilkynningum. Matta fannst eitthvað voða sniðugt að ég væri með svona facebook - sjáum hvort ég klóri mig í gegnum þetta í framtíðinni.  


1. des

Kæru íslendingar, nær og fjær – Til hamingju með daginn!

Fékk nett sjokk í gærkvöldi, mín bara ekkert byrjuð að skreyta.  Ætla þó að bæta ráð mitt í dag og jólast.  Komst í svo mikið jólastuð þegar ungarnir opnuðu fyrsta gluggann á jóladagatalinu.

Þá er um að gera að rífa skrautið upp úr skipulaginu síðan í sumar, ætti ekki að vera mikið mál, enda allt vandlega merkt.

Sjáum hvernig gengur!

Kveðja Áslaug


Laugardagur 24. nóvember 2007

Elsku pabbi, til hamingju með 70 ára afmælið!  Við skulum vona að þetta sé þinn rétti afmælisdagur, annars er ég degi of sein með hamingjuóskirnar. 

Amma var víst hjátrúafull kona . Hún átti 8 börn.  Til 18 ára aldurs átti pabbi afmæli 23. nóvember.  Skírnavottorð sem hann komst yfir þá sagði hins vegar að drengur væri fæddur 24. nóvember.  Hverju skal trúa veit ég ekki en m.a. af þeim sökum veit pabbi ekki fyrir víst hvort hann eigi í rauninni afmæli í dag.  Eitthvað held ég að hjátrúin fylgi honum líka en honum fannst sjálfum 24 betri tala en 23, svo afmælisdagurinn færðist til.   Hann er líka næst yngstur í systkinahópnum, og því efalaust erfitt að muna svona marga afmælisdaga.   Kannski  varð hann því 70 ára í gær en úr því fáum við víst aldrei skorið því fyrir 70 árum var ekkert pappírsflóð og ferli við fæðingu barns.  Ein skýrla er þó til er varðaði heimili pabba, sem mér finnst alltaf jafn hlægileg og það er skattaskýrslan (já skatturinn klikkar aldrei).  Í þeim plöggum var  amma mín einmitt talin upp með húsdýrunum, á skattaskýrslu afa míns.  Hann var þó engin karlremba, ofsalega góður og klár maður.  Þetta einfaldlega tíðkaðist.  Amma stóð upp við ofninn, fæddi börn og hélt svo áfram að vinna.  Langamma mín sat hins vegar reykti pípu og orti vísur enda skáldkona mikil.

Já, þá var nú ekkert Hreiður þar sem fæðandi konur gátu átt rólega stund ásamt nánum ástvini og notið þess að dást að nýfæddu barni sínu.  Ég held að nútíma íslenska konan myndi hvorki láta bjóða sér ofn né að teljast upp ásamt húsdýrunum.

En að öðru…

Tónleikarnir gengu ótrúlega vel, mikil stemmning og alveg super trúper gaman.  Ég barasta held að endurtekning verði gerði á þessum leik, fyrr en seinna.  Gaman að sjá svona mikið af skemmtilegu fólki, nú og fólki sem ég þekki ekki neitt, en býst fastlega við að sé ansi kátt, að nenna út í bæ á fimmtudagskvöldi.  Við notuðum tækifærið og drukkum doldið af veigum og sátum sem fastast og höfðum gaman eilítið fram á nóttina – Allir hressir samt!

En….

Nú þarf ég að undirbúa kaffiboð fyrir hann pabba minn, svo ég þarf að haska mér í smá tiltekt og undirbúning.   Þú getur þó nóterað í dagbókina, litla sæta jóla jazz tónleika 9 desember á stað sem heitir 7-9-13 – en ég ætla ekki að segja þér hvar hann er, allavegana ekki fyrr en ég hefi komist að því sjálf!  Kallið mig því bara álf, frekar en kálf, okey, ég veit, 'er, eitthvað hálf, svona skrítin!

Knús í mús

Kveðja, Áslaug

  


Gaukurinn - fimmtudagur

Tónleikar - Gaukurinn - fimmtudagur 22. nóvember - kl. 22.00

- Frítt inn!

Prógrammið fyrir hlé samanstendur af lögum sem flutt voru og gerð ódauðleg af Janis Joplin.  Ég ætla sum sé að syngja nokkur af þessum lögum, en ég heiti auðvitað ekki Janis né nota heróín og er líka orðin meira en 27 ára.  Það væri voða gaman að sjá þig!!  Hvað er einmitt langt síðan þú skelltir þér niður í bæ á fimmtudegi og hlustaðir á lifandi tónlistarflutning? - Örugglega allt of langt síðan!

Eftir hlé ætlar svo Alexander Aron að stíga á stokk og flytja lög sem áður voru flutt af "Blood, Sweat and Tears" - Blóð, sviti og tár.

Bandið er ekkert rosalega lélegt og sér Jón Geir um trumbuslátt, Ingó bassaleik, Rabbi spilar gítarlínur, Egill lemur píanóið og Matti hammondast í fyrri hálfleik.  Einnig mætir á svæðið brasssveit, þeir Þorvaldur, Freysi og Andrés, en Matti saxar svo eftir hlé! - M- blues project 

Sjáumst! -

Kveðja Áslaug 


Morgun stund gefur gull í mund

Allt hefur verið með rólegra móti í Ólátagarði, þessa vikuna.  Mamman er að byrja að huga að jólum og jólagjafakaupum.  Sumum finnst það auðvitað snemmt og öðrum kannski að ég sé gjörsamlega búin að tapa af lestinni og muni aldrei ná þessu nema spíta all verulega í lófana.  En svona er nú það.

Hálfdán Helgi æfir fótboltann einu sinni í viku.  Honum finnst rosalega gaman.  Lenti reyndar í slag á síðustu æfingu.  Einhverjir strákar voru að stríða vini hans og Hálfdán ákvað að verja hann.  Strákarnir létu sér nú ekki segjast og rifu gleraugun af Hálfdáni og ýttu honum svo hann datt.  Mömmu hjartað barðist hratt þegar hún heyrði þessa sögu.  Hvað er þetta með stráka og slagsmál?  Hálfdán Helgi kannski ekki með þeim sterklegustu á svæðinu, frekar lítill og mjór, en samt að verja heiður félagans!
Annars þá æfir Hálfdán Helgi stíft lögin af gamla Abbababb disknum, en hann segist vera að fara að setja upp sýningu á verkinu (þar sem hann væntanlega leikur öll hlutverk, sjálfur).  Mjög spennandi sýning og mamman hlakkar mikið til.

Mikil spenna ríkir á heimilinu yfir ballet sýningu, sem mun skella á eftir 2 vikur.  Þá ætlar ungfrúin að sýna hvað hún er búin að vera að læra síðustu mánuði.  Öllum að óvörum þá tekur trillan litla ballet tímana MJÖG alvarlega og vandar sig mikið.  Fílar alveg í botn að vera ein af 10 bleiku ballerínunum.  Búningurinn auðvitað helmingurinn af dansinum.  Ætli hún sé ekki bara mömmu betrungur, agaðri og penni á allan hátt – ánægð með það!

Matthías minn í góðum gír.  Bíð enn spennt eftir rannsóknunum sem eiga að skella á.  Mjög líklega eru rannsóknarglösin þó föst í póstinum einhversstaðar í Bombay, því ansi langan tíma tekur þetta!  En það liggur svo sem ekkert á, höfum hvort sem er ekkert vitað í 3 ár, svo nokkrar vikur, mánuðir eða jafnvel ár, til eða frá, skipta kannski ekki öllu!

Tónleikar í næstu viku! Gaukurinn – já, sá gamli góði! Fimmtudagur 22 nóv., mín syngur nokkur J. Joplin lög á fyrri hluta tónleikanna.  Seinni hlutinn syngst svo af Alexander Aroni, en M-blues project flytur lög eftir hina geisi góðu “Blóð, sviti og tár”. – Endilega að mæta, tími fyrir bjór, rauðvín eða jafnvel kaffisopa með eða án mola!

Föstudagur, fín sjónvarpsdagsskrá, ætla að horfa á “Stelpurnar” og gráta af hlátri. 

Bið að heilsa þeim sem ég þekki sem þú þekkir 

Kveðja, Áslaug

 


Stubba saga

Hálfdán Helgi situr á spjalli við mömmu sína í sófanum

 

H.H:  Ég á rosalega mikinn pening!

M:   Nú?

H.H:   Já, í bauknum mínum, ég er búinn að vera svo duglegur að safna!

M:  Og hvað ætlarðu að gera við peninginn?  Ætlarðu kannski að kaupa jólagjöf handa mömmu og pabba?

H.H:  Jaaaaá (samt doldið hugsi – var kannski ekki efst á óskalistanum)

M:   Já, og hvað ætlarðu að kaupa handa mömmu og pabba í jólagjöf?

H.H:  Eitthvað svona fullorðins dót!

M:   Hvernig fullorðins dót?

H.H:  GLAS úr GLERI, fullorðnir drekka nefnilega alltaf úr glerglasi!

M:  Já, það er nú góð hugmynd og ætlarðu að kaupa eitthvað fleira?

H.H:   Kannski DISK, líka úr GLERI, en ég held samt að það verði of dýrt!

M:  Þannig að þú kaupir þá kannski bara glasið?

H.H:  Já, ég held það!

 

Alltaf gaman að sjá heiminn með augum barnanna InLove


Á heimspekilegum nótum..

Ég er kona, mamma, eiginkona, dóttir, söngkona, systir, tónlistarmaður,  kennari,  frænka, vinkona, kunningi og örugglega ýmislegt fleira.

Sumum hlutverkum sinni ég vel og sumum illa.  Stundum sinni ég samt þeim hlutverkum sem ég sinni illa, vel.

Ég er skemmtileg, leiðinleg, utan við mig, rosalega ör, vitlaus, klár, fyndin, húmorslaus, sæt, ljót  óákveðin, frek, allt eftir því hvernig þú lítur á mig.

Hvernig fólk lítur á annað fólk fer eftir því í hvaða aðstæðum það kynnist því, en ef það hefur aldrei kynnst þér hvernig veit það þá hvernig þú ert og hvert þitt hlutverk er? 

Hef ég bara eitt hlutverk?  Krakkarnir í skólanum líta á mig sem kennarann (eðlilega), á gigginu þá er ég söngkonan (allavegana ef ég er að gigga), börnin mín líta á mig sem mömmu (sem betur fer).  En er bannað að blanda hlutverkum saman? 

Það sem hvetur mig í þessar vangaveltur eru orð konu sem ég hef aldrei séð, ég veit ekki hver hún er og ég veit heldur ekki hver hlutverk hennar eru.

Konan sat í röðinni fyrir aftan Matta áður en ákveðin “skemmtun” hófst um daginn og lét hún þau gáfulegu orð falla við sessunaut sinn;”…..afhverju er hún í þessu, hún á víst langveikt barn!  Hún ætti nú frekar að vera að syngja á styrktartónleikum fyrir langveik börn”.

Ég fór nú bara að hlægja þegar Matti sagði mér þetta.  Henni þótti sum sé ekki við hæfi að ég gæti átt mér líf utan þess að eiga hann Matthías minn.  Mitt hlutverk væri að vera mamma hans (punktur).  Ég mátti ekki blanda hlutverkunum svona saman (ekki það að það væri sannarlega heiður að syngja á styrktartónleikum hvers kyns).

- Krakkarnir í skólanum gætu líka sagt: “Afhverju er hún í þessu, hún á að vera að kenna mér!”

- Matti gæti sagt: “Afhverju er hún í þessu, hún á að vera að elda mat fyrir mig!”

- Vinkona mín gæti sagt: “Afhverju er hún í þessu, hún á að vera á kaffihúsi með mér!”

Tek það fram að ég varð ekki ogguponsu sár en hvernig þessi kona hafði frétt eða grafið upp þessar upplýsingar er hins vegar efni í annan pistil.  Minni þó á að forvitnin drap köttinn!

En hver ert þú?

Knús Áslaug, ofurkona með margbreytilegan persónuleika  Wink


mamman fékk áfall..

Ætlarðu að segja mömmu hvað þú gerðir í leikskólanum í dag, Matthías, segir Carolina yfir kvöldmatnum? “já, ég var að leika mér og …”  Nei, Matthías, hvað “GERÐIRÐU” í dag. 

“Ég beit einn strák í magann, það kom blóð og hann þurfti að fara á spítalann” segir Matthías mjög yfirvegað.  Já, mamman hvítnaði í framan.  Fékk svo þær upplýsingar að allt hefði verið í lagi með strákinn, sem var bitinn af syni mínum. 

(mamman) Afhverju beistu strákinn? – “Af því að hann var að rífa símann af mér”.

(mamman) Maður bítur EKKI þó einhver sé að rífa af manni, ætlarðu að lofa því að gera þetta aldrei aftur!?

Og Matthías svarar jafn yfirvegað og áður “konan sagði það líka” (s.s fóstran lét hann lofa því líka).

(mamman) Lofarðu því Matthías? – “ég lofa því”

 

Við skulum vona að Matthías standi við orð sín. Púff!, En eins og við segjum oft, þá líklegast meltir hann ekki, því hann nýtir orkuna í heilann, skilur allt sem við hann er sagt og kann að svara fyrir sig, þó lítill sé. 

Helga systir fékk hund “Aron” í fyrir fram stórafmælisgjöf, Helga og Matthías eiga hundinn saman.  Það fyrsta sem Sigurjóni (manninum hennar Helgu) datt í hug væri að Matthías væri að herma eftir hundinum.  Hjördís amma hringdi og sagði það sama.

– Nei!  Það dettur engum í hug að trúa svona hlutum upp á herra Matthías Davíð.  Þetta er örugglega hundinum að kenna Wink


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Aslaug

Höfundur

Áslaug Helga Hálfdánardóttir
Áslaug Helga Hálfdánardóttir

Tónlistarspilari

1.Happy family - Áslaug Helga
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband