Ferðasaga

Home sweet home. 

Ferðasagan er að verða sú sama aftur og aftur og aftur og aftur og aftur.  Matthías fær hita, crp (sýkingafactor í blóði) hækkar óeðlilega mikið.  Í þessari umferð mynnir mig að hann hafi slegið sín fyrri met “364”.  Það versta er þó að miltað étur upp blóðflögurnar.  Hann var komin niður í 20 þúsund í gær (eiga að vera minnst 150 þúsund og yfir).  Í “annað” sinn er hann svo kominn með þvagfærasýkingu.  Ég segi “annað” sinn því það fyrir október innlögnina höfðu ekki verið teknar þvagprufur svo ótrúlega lengi, þegar hann lendir í þessum sýkingum.  Hann var auðvitað með hita í kringum 40, og settur á sýklalyf í æð.  Vonandi er hann að snúa við núna, en það er gangurinn í þessu, en mér finnst hann sjaldan eða aldrei hafa komið heim aftur jafn veikur!  Hann liggur eins og slitti, sem getur auðvitað stafað af blóðskorti (orðin frekar lár í “hemo,um 90”).  Svo lítur hann svo veiklulega út, hakan orðin eldrauð af húðblæðingu, sem gerist við svona mikin skort á blóðflögum – duddan nuddast við hökuna. 

Nokkur ævintýri gerðust á þessu ferðalagi.  Leggurinn stíflaðist og leit út á tíma að Matthías þyrfti að fá nýjan legg, en þetta voru kannski ekki kjöraðstæður fyrir aðgerð.  Þá var sett upp nál fyrir vökvann en það vildi ekki betur til en svo að nálin fór úr um miðja nótt og hálfa nóttina rann vökvinn undir húð og Matthías vaknar með fjórfalda hendi og brunasár eftir umbúðirnar.  Hebarin (blóðþynning) leysti líklegast upp stífluna í leggnum, sem betur fer, svo hægt var að nota legginn aftur.  Nýrun voru ómuð og Matthías fór í DMSA (vona að þetta sé rétt) eða Ísatópaskann – Nú er mamman nefnilega að læra nýtt, þ.e. Nýrun.  Komin með sérhæfða doktorsgráðu í meltingarfræðum og þá er um að gera að að mamman stoppi ekki þar og læri svolítið um nýrun – þökk sé Matthíasi!

Matthías er þó alltaf jafn klár í kollinum og átti sín moment, æpti td. á aðstoðarlækninn sem setti upp nál, aftur og aftur: “FARÐU VONDI” – maður verður að verja sig, þó maður sé bara 3 ára.  Matthías kannski ekki líklegur til að afla sér vinsælda á þeim bæ.

Hann hlustaði vel á meðan hans læknir talaði við mömmuna í gær og þegar læknirinn var farinn út þá segir Matthías: “L. sagði að ég mátti fara heim”! – alveg með þetta á hreinu.

Jæja, þá er vonandi þessi törn sé búin í bili, þangað til næst!

Elskið hvert annað og verið stillt!

Knús , Áslaug


Stormur

Jú, úr varð stormur og er adressan enn á Hringbrautinni. Eitthvað er þó að lægja eða við skulum vona það.  Fyrir þá sem hafa ekkert sérlega gaman að veðurfréttum, þá boða ég nýjan pistil innan skamms, en er aðeins of lúin núna til að sitja við skriftir.  Hins vegar býð ég upp á lag úr spilaranum, sem heitir "Stormur" og segir eiginlega næstum allt sem segja þarf - Gerðu svo vel!

Kveðja úr 101 Rvk eða er það kannski 105 Rvk.  Æji veit ekki!


janúar

Jæja, fyrsta gistinóttin á Hringbrautinni þetta árið.  Doldið hvassviðri en sjáum hvort það sé nokkuð stormur í uppsiglingu!

 


Fyrsta færsla ársins

Gleðilegt ár, vona að þú hafir átt ánægjuleg áramót.  Hér var allt með kyrrum kjörum og voða notalegt, nema kannski veðrið, en hverjum er nú ekki sama um það!  Græddum reyndar að brennan var ekki fyrr en á nýársdag og á mun skikkanlegri tíma fyrir mína unga, svo allir gátu farið með.  Ég fór í fyrsta sinn á brennu í Kópavogi, en barnfæddi Kópavogsbúinn sem ég bý með, hefur alltaf haldið því fram að þetta sé besta brennan tja, já örugglega á öllu landinu.  Ég gat nú ekki séð að þessi brenna væri neitt frábrugðin öðrum spítnahrúgum sem kveikt er í, en jú, jú, hún var fín!  Börnin höfðu takmarkað úthald í að horfa á eld, en fannst Valgeir Skagfjörð þeim mun skemmtilegri, en hann sá um að halda uppi stemmningunni.  Þau tóku smá snúning og á meðan flugeldasýningunni stóð, þá var Matthías meira að horfa í átt að sviðinu og tékka hvort að píanógaldramaðurinn væri ekki að koma aftur.  Annars var flugeldasýning rosa flott, ekki það að ég hef nú sjaldnast sérlega gaman að svona sprengingum.  Eiginlega bara skíthrædd við þetta flugeldadrasl!  Já, ég er svona hress!

Eigum við ekki bara að vona að ég hressist enn meira við að fara og láta lita á mér hárið og segi því staðar numið hér

Kveðja, Áslaug


Nýtt ár..

Stundum rætast óskirnar.  Ég fékk það sem ég vildi, gleðileg jól.  Allir heima og jólin gengu sinn vanagang með tilheyrandi, mat, pökkum, jólaboðum, almennri leti og þakklæti í hjartanu. 

Aðfangadagur var eins og hann átti að vera.  Það sem kom kannski mest á óvart er hvað ég á góð börn.  Ekki það að mér hafi ekki alltaf fundist þau yndisleg og góð.  Ég man að ég sjálf var ekki svona róleg og yfirveguð með alla þessa pakka í kringum jólatréð.  Börnin í Ólátagarði vissu bara alveg að maður opnar pakkana eftir matinn, dunduðu sér og voru hin mestu prúðmenni og sátu meira að segja til borðs eins og fínt fólk og enginn að flýta sér.  Þegar loks kom að seremóníunni þá var tekin röðin á að sækja pakkana.  Hjördís Anna fyrst, því hún er elst, alveg mínútu eldri en Hálfdán Helgi, sem var næstur og að lokum Matthías Davíð.  Svo var lesið á pakkann og þeim fært sem átti.  Hálfdán Helgi var líklegast sá sem kátastur var með þetta allt saman og í hvert sinn sem pakki var til hans var eins og við hefðum öll saman unnið fyrsta vinning í lottóinu.  Hoppað upp og yes!!  Það var ótrúleg tilviljun að þegar röðin kom að honum að sækja pakka, þá sniglaðist hann vel og vandlega og kíkti á kortin og valdi svo einn.  Oftar en ekki var pakkinn til hans.  4 ára guttinn er búinn að læra að lesa nafnið sitt og því engin tilviljun að hann átti alla pakkana sem hann sótti.  Þriggja tíma pakkamaraþon og allir sáttir og sælir.

 

Fyrsta árið í langan tíma sem mér hefur tekist að lesa á þessum tíma árs.  Þvílík sæld.  Börnin á náttfötunum allan daginn og ganga sjálfala um húsið og mamman situr í stólnum og neitar að hreyfa sig.  Mjög ljúft.  Ég las bókina um “Bíbí” eftir Vigdísi Gríms.  Snillingar báðar tvær! Saga um gleði, sorgir, ástir og örlög.  Bókin er svo myndræn að ég sat límd og sá þetta allt fyrir mér.  Ef ég væri einhver af snillingunum í kvikmyndageiranum, þá myndi ég tryggja mér réttinn hið snarasta, því þessi saga selur.  Ég sveiflaðist með í ofsagleði niður í argasta hyldýpi og allt þar á milli.  Eftir þessa stóru bók vildi ég einfaldleikann og las á einu kvöldi “Öll trixin í bókinni”, ég lærði kannski enginn trix, en skemmtileg lesning um íslenskan ofurhuga með stórt hjarta og vel skrifuð af Arnari Eggerti.  Í morgun opnaði ég svo “Rimla hugans” eftir Einar Má, ég var loksins tilbúin eftir lesninguna miklu.  Mér lýst vel á, en þó ekki búin!  Fæ víst ekki að eyða þessum degi í stólnum.  Erum í stóraðgerð við að vera fullorðins og sjá um kalkúninn sjálf!

 

Mér finnst þessi síðasti dagur ársins alltaf doldið spennandi.  Fæ smá kvíðahnút og smá tilhlökkunarhnút í mallakút.  Það er eins og allt sé að byrja á núllpunkti aftur og enginn.. eða allavegana fáir hvaða ævintýri nýja árið ber með sér. 

Fyrir einu ári á sama tíma þá var yfirvofandi London ævintýrið mikla.  Matthías fer í flugvél að hitta einhverja flinka karla sem ætla að finna út úr því hvað sé að prinsinum.  Það ævintýri reyndist svo frekar glatað.  Ekkert meira hefur verið gert í þeim efnum þetta árið.  Mamman ætlar þó í bardagagírinn á nýju ári með tilheyrandi frekjukasti.  Bind þó miklar vonir við ferð sem lítill vinur okkar er að fara í til Boston, vonandi núna í janúar, því ef eitthvað kemur út úr því þá er Matthías næstur.  Allt ferlið í kringum þá ferð er svo tilviljanakennt að það getur ekki verið tilviljun.  Segi vonandi meira frá því síðar!

Já nýtt ár og ný ævintýri.  Auðvitað lofar maður öllu fögru um að ná loksins af sér fæðingarspikinu, það er náttúrulega löngu hætt að vera afsökun að vera núbúin að eiga barn (ekki nema 3 ár síðan).  Nú kannski gerist eitthvað skemmtilegt tónlistar.. en það er svo gott fyrir sálina. 

…Og ef þú ert enn að lesa, enda orðið heldur langt, þá segi ég að lokum..

GLEÐILEGT ÁR og sendi þér stórt stubbaknús!

Kveðja, Áslaug 

 


Gleðileg jól

Kæru bloggvinir, vinir, fjölskylda, kunningjar og aðrir lesendur

Gleðileg jól og hafðu það sem allra, allra best!

Mega-knús og kveðja, Áslaug 


21 desember 2004

Konan frá heilsugæslunni kom að vikta litla 2 vikna stubbinn.  Þetta var þriðjudagur og hún hafði líka komið á föstudeginum áður og við sammælst um það að ég myndi gefa honum ábót á pela til að ná upp þyngdinni.  Nota sama trixið og ég hafði gert við Hálfdán Helga 18 mánuðum fyrr. Það hafði virkað.  Ég taldi mér trú um að kannski væri ég bara ekki mesta mjólkurkýr í heimi.  Reyndar var eitt svolítið skrítið og það var að barnið kúkaði stanslaust, fyrir gjöf, eftir gjöf og á milli gjafa, gulleitur vökvi sem sprautaðist út.  Ég hafði eignast tvíbura 18 mánuðum fyrr og mundi bara alls ekki eftir því að þetta hefði verið svona.  Allir sögðu:”þetta eru bara ungbarnahægðir”, ljósmóðirin, heilsugæslan, eftirskoðunin.  En þetta var ekkert eðlilegt! 

Konan frá heilsugæslunni setti hann á viktina, hann hafði lést um 500 gr. Hálft kiló fyrir svona lítinn kropp er ekkert smávegis.  Hann hafði verið 3710gr. við fæðingu, en var núna 3200gr.  Við ákváðum að réttast væri að láta kíkja á hann.  Ég hringdi í Helgu systur og bað hana að koma og passa tvibbana.  Þegar hún sá hann sagði hún mjög yfirvegað, þannig að ég pældi ekki því fyrr en eftir á “búðu þig undir að þið verðið lögð inn”.  Seinna þegar ég sá myndir af honum, þá er hann rosalega tekinn í framan.

Við fórum með hann niður á Bráðamóttöku og líklegasta skýringin var að hann væri með einhverja niðurgangspest.  Stubburinn barðist og barðist, þegar verið var að pota í hann og enginn gerði sér því grein fyrir hversu veikur hann var orðinn. Það voru teknar blóðprufur, settur upp vökvi hjá honum og við fórum lögð inn.  Stuttu eftir að við vorum komin upp á deild kom læknirinn og sagði að það þyrfti að endurtaka blóðprufurnar, því þær væru svo brenglaðar að það kæmi ekki annað til greina en þær hefðu klúðrast.  Seinni prufurnar voru alveg jafn brenglaðar.  Á þeim tíma skyldi ég auðvitað ekki orð af því sem læknirinn sagði, en heyrði fullt af skrítnum orðum eins og “joniserað calcium”- frítt kalk í blóði, sem varð óvinur minn næstu mánuði.  Það hefði ekki mátt muna degi að hann var lagður inn, annars hefðum við misst hann.

Niðurgangspest var þetta ekki, en miðað við þá útskýringu hefðum við komist heim fyrir jól.  Ekki komumst við heldur heim fyrir áramót.  Fyrst í byrjun janúar var farið að rannsaka hann fyrir utan eina hjartaómun sem var gerð milli jóla og nýárs.  Í lok janúar fékk hann næringu í æð, sem ég hef einhverntíma áður útskýrt að er allt annað en vökvi í æð.  Þá hafði hann í rauninni lifað heilan mánuð til viðbótar á viðhaldsvökva í æð.

Ég man að ég hélt ég kæmist aldrei heim!  3mánuðum seinna fórum við svo heim, með dæluna, næringuna og allan pakkann.

Nú eru að koma jól 21 desember 2007.  Ég á mér bara eina ósk, ósk um að við verðum öll saman fjölskyldan og enginn lasinn.  Mér er alveg sama þó ég sjái ryk í einhverju horni, þó sósan sé ekki nákvæmlega eins og í fyrra, sama þó ég fái ekki “Grace Anatomi – seríuna “ í jólagjöf frá Matta, þó það sé rok og rigning en ekki nýfallinn jólasnjór og svo framvegis. 

Það sem áður skipti mig máli skiptir mig nú engu máli.

21. desember 2007 – flotti strákurinn minn fór í leikskólann í morgun, með legginn sinn, voðalega kátur og fær svo næringuna sína í nótt.  Ef þú spyrð hann “hvernig hefurðu það Matthías?”, þá svarar hann örugglega “ég er bara hress!”.

Jólaknús, ekkert stress, bara hress, kveðja Áslaug  


Jóla, jóla

Stekkjastaur kemur í no-ótt, Giljagaur kemur í no-ótt og í kvöld hlaupa tribbarnir syngjandi um húsið, Stúfur kemur í no-ótt!  Allir voðalega þægir og góðir að fara að sofa á kvöldin og alltaf hægt að nota sveinka sem agatæki – “ætlar þú nokkuð að fá kartöflu í skóinn?”, Já desember er góður mánuður!

Kveðja Áslaug, sem er MJÖG ánægð með jólasveininn


Allt rólegt..

Þetta voru örugglega rólegustu og mest kósí tónleikar, sem ég hef spilað á.  Fílaði mig alveg eins og ég væri komin heim og upp í sófa Cool
... (þeir sem ekki skilja, geta lesið Matta sax)

Guðrún Thelma stóra stelpan hans Matta átti átta ára afmæli í gær, verður því slegið í tvöfalt húllumhæ fyrir familíuna á föstudag..  von á góðum gestum erlendis frá í afmælið og mikill spenningur!

Annars bara þriðjudagur og stemmning eftir því...

Knús, Áslaug 


Tónleikar

Tónleikar í kvöld á 7-9-13, staðsettur á Klapparstíg, ská á móti Sirkus.  Á boðstólnum verður léttur jóla-jazz spilaður af þeim Matta sax á saxafón, Rafn á gítar og Ingó á bassa.  Ég ætla að gaula eitthvað með líka, enda komin í mikið jólaskap  og í gríðarlegu stuði til að syngja nokkur jólalög!  Veitslan hefst kl.21.30 og það væri auðvitað voða gaman að sjá þig.

Við hjónin skelltum okkur á Akureyri í vikunni og gistum tvær nætur.  Fyrra kvöldið var öllu rólegra, en gömlu hjónin voru sofnuð kl. 20.30.  Ég man eftir að hafa heyrt eina eða tvær sögur af þreyttum foreldrum sem ætla að eiga rómantíska daga en enda steinsofandi uppi í rúmi, þegar loksins gefst tækifæri til.

Seinna kvöldið var mun hressilegra, kannski jafnvel aðeins of hressilegt.  Matti var að spila á tónleikum með Sniglabandinu.  Þeir buðu til veislu á veitingastaðnum Friðriki V, þar sem var borðað og drukkið ýmislegt mjög spennandi.  Ótrúlegur staður og mæli ég með honum!  Tónleikarnir voru vægast sagt frábærir.  Miklir snillingar í þessu bandi, hver öðrum betri hvort sem telja má í orði eða puttunum.  Eftir tónleikana var tekið vel á því.  Talaði við aðeins fleiri en ég þekki , ýkti ýmislegt og bullaði svo aðeins meira. – Ég held að þetta muni flokkast sem ofurdjamm ársins, þetta árið.  Nú jæja, aðeins seinna í bólið þetta kvöldið eða um kl.2.

Greinilega margt á prjónunum, þó ég sé nú ekki þekkt fyrir mikla handavinnu.  Í gærkvöldi fór ég á jólahlaðborð… þvílíkt hlaðborð mmm á Hilton hótlelinu.  Veistu hvar það er? Nordica eða bara gamla hótel Esja.

Þá held ég að flest allt sé upptalið… nema ef þú ert ekki búinn að hlusta á jólalagið mitt “Sögur á jólum”, í spilaranum hér við hliðina.

Sjáumst kannski í kvöld

Knús, Áslaug


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Aslaug

Höfundur

Áslaug Helga Hálfdánardóttir
Áslaug Helga Hálfdánardóttir

Tónlistarspilari

1.Happy family - Áslaug Helga
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband