Langa vitleysa

Brrrrr sá snjóinn lemja gluggana svo varla sást út, en það er bara sætt og kemur á hárréttum tíma, einmitt þegar maður er að setja upp jólin. Jólaljós og jólaskraut, jólapakkar, jólakort, jólaföt, jóla, jóla, jóla. Fyrsti sunnudagur í aðventu og aðventukransinn í tómu rugli (að vanda), nei myndi nú aldrei reyna að telja þér trú um að ég sé svona föndrari og dúllari í eðli mínu. Kertin þó komin á sinn stað og hægt að kveikja á einu kerti í dag, tilgangnum náð, þó skreytingakonur landsins myndu grýta mig með steinum ef þær sæju hörmungina sem ég býð upp á á mínu heimili. 1,2,3,4,5,6 línur um jól? Þessi færsla átti sko sannarlega ekki að snúast um jól, en svona gerist stundum þegar puttarnir og heilinn samræmast ekki.

Dóttirin, hún Hjördís Anna búin að vera í þjálfunarbúðum alla helgina. Hún er að þjálfa snú, snú og sipp! Það má nú segja að stubbarnir séu nú heppin að eiga þessi stóru systkini (stóru börnin hans Matta) og mjög svo heppilegt að þau séu í sama skóla. Æðislegt að hafa einhvern til að passa upp á mann í skólanum. Guðrún Thelma ásamt vinkonu var á rölti í frímínútum, þar sem hún heyrir til stelpna í 1. Bekk, sem segja „Hjördís Anna, þú átt að vera staur“ (í snú, snú, þá stendur staurinn og snýr bandinu allan tímann). Stóra systirinn varð nú heldur betur ekki kát við að heyra þetta og skammar stelpurnar og segir „hún á ekkert að vera staur allan tíman, hún má alveg hoppa líka“! Stelpurnar sem auðvitað bera mikla virðingu fyrir svona eldri nemanda (5. Bekk), segja lúpulegar „já en hún kann ekki að hoppa“ og Hjördís Anna tekur undir Það, að henni finnist allt í lagi að vera staur, því hún kunni ekki að hoppa. Stóra systirin sem finnst þeirri litlu samt sem áður heldur betur misboðið segir hneyksluð „já, en ef hún fær aldrei að hoppa, þá lærir hún það aldrei“ ! Þannig að þessa helgina hefur Hjördís Anna lært að hoppa, bæði með sippubandi og snú, snú bandi, hvort sem henni líkaði betur eða verr. Nú hoppar hún um húsið, skælbrosandi með sippuband. Já, gott að eiga stóra systur sem passar upp á mann og kennir manni að hoppa.

Það eru miklar pælingar á heimilinu um það hvernig litlu börnin koma í heiminn. Þrieykið flettir stundum bók um meðgöngu, þar sem á einni blaðsíðunni er mynd af konu og barnið að koma út. Þetta er eiginlega uppáhaldsmyndin og í hvert skipti sem blaðsíðan opnast, þá segja þau í kór „OJJJ“ og svipurinn lýsir miklum viðbjóði. Það er auðvitað búið að ræða svolítið hvernig þetta var þegar þau komu sjálf í heiminn. Um daginn sögðu tvíburarnir ákaflega hreykin „ við komum út um magann“ (sem sagt með keisaraskurði sem þykir greinilega mun fínna í þeirra heimi), Matthías tekur undir og segir, „ég kom líka út um magann“ (með vonarneista í augunum, þó hann vissi betur). Tvíburarnir, sem voru alveg til í að láta litla bróðirinn finna fyrir smá skömm segja þá í kór „ Nei! Matthías! Þú komst út um „pjölluna“(eins og þau segja)“ og sami vandlætingarsvipurinn sem settur er upp í hvert sinn sem þau opna blaðsíðuna í bókinni lét sko ekki standa á sér. Aumingja Matthías, þagði bara, þvílík skömm að vera eins og krakkinn í bókinni. Foreldrarnir sem hlustað höfðu á þessar áhugaverðu samræður, þurftu nú að útskíra fyrir þríeykinu að langflest börn fæddust á þennan sama hátt og Matthías hafði gert og að öllum líkindum myndi litla barnið okkar líka koma þessa sömu leið líka. Keisarinn og keisarynjan telja sig nú samt pínulítið yfir þetta hafin, þau komu jú í gegnum magann, en lögðu ekki á sig þetta „ógeðslega“ferðalag í gegnum „pjölluna“, OJJJ, ojj,ojj“.

Annars bara jólaskapið komið, fórum fjölskyldan að vera viðstödd þegar kveikt var á jólatrénu í bænum og mikil spenna að hitta jólasveinana, þá fyrstu á þessu ári. Vinkona mín hafði ætlað með en þurfti að hætta við þar sem eldri sonur hennar harðneitaði að fara eftir að hann komst að því að það ætti að kveikja á jólatrénu en ekki í því , eins og móðirin hafði gefið til kynna í upphafi (sem hefði auðvitað verið mun meira spennandi, og þessi mamma hér hló).

Knús í krús og kveðja, Áslaug


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þóra Sigurborg Guðmannsdóttir

Já, það er ekki skrítið að þeim finnist það nú ekki fínt að koma út um pjölluna HAHAHA. Þessar elskur. Mikið sakna ég ykkar. Hafið það sem allra best kæru vinir og gangi þér vel á síðustu meðgöngumetrunum. Verðum í bandi

Þóra Sigurborg Guðmannsdóttir, 9.12.2009 kl. 22:07

2 identicon

Góður pistill sem fyrr hjá þér Áslaug.

Arnar (IP-tala skráð) 17.12.2009 kl. 23:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Aslaug

Höfundur

Áslaug Helga Hálfdánardóttir
Áslaug Helga Hálfdánardóttir

Tónlistarspilari

1.Happy family - Áslaug Helga
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.12.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband