Færsluflokkur: Bloggar
13.3.2009 | 15:59
Töfranótt
Föstudagurinn 13 og held ég sé pottþétt ekki andsetin meira svona and-étin og hef þar af leiðandi hvorki neitt gáfulegt né heimskulegt til að setja á prent!
Komin tími til að skipta út lagi og set Töfranótt í spilarann .
Lagið gaf ég mömmu minni í afmælisgjöf 2006, en þá með öðrum texta
Snjóþungur vetur og nóttin dimm, lok janúar og mamma orðin sjötíu og fimm hljómaði þá einhverstaðar í laginu.
Breytti síðar textanum og nafninu.. nokkrum sinnum. Ljósbjört nótt sem varð að Töfranótt af því mér datt ekkert skárra í hug. Jón Geir vinur minn kallar þetta lag þó aldrei annað en Fjallageitin og telur hreinlega ekki í (slær kjuðunum saman), fyrr en ég hef snúið mér við og hvíslað hátt Fjallageitin eftir að hafa kynnt lagið fyrir áheyrendum sem Töfranótt. Lagið er einhvers konar hálf-reggí, ansi bara hresst og ákaflega lagræn tónsmíð . Textinn á sér enga stoð í raunveruleikanum en er doldið svona Hin hugsunarsnauða blinda ást. Lagið er auðvitað mjög sommer-lí-fíl enda veitir kannski ekki af smá svoleiðis núna, þegar ég held að flestir séu farnir að bíða eftir vorinu
Allavegana hún ég.
Knús og kærleikur á föstudegi , Áslaug
ps.(þessi tákn eru alltaf jafn skemmtileg)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.3.2009 | 10:49
Ljós heimsins
Ætla að setja inn eitt og eitt lag af disknum öðru hverju til að leyfa áhugasömum að heyra
Ljós heimsins eitt af hressari lögum af disknum mínum Lögmálinu, þetta er einnig elsta lagið og samið á haustdögum 2005. Þetta er eina lagið sem ég á ekki 100% alein, og er samið ásamt Matthíasi V. Baldurssyni og Þránni Árna Baldvinssyni. Lagið er ávöxtur samstarfs okkar undir nafninu Sága, en átti aldrei heima með öðru efni sem við vorum að semja. Ég ákvað því að taka þennan litla bastarð upp á mína arma, enda fellur það ágætlega inn í umhverfi disksins. Þetta er að ég held eina lagið þar sem ég gerði tilraun til að semja texta á ensku og hét Happy boy upprunalega, en sökum þess að mér er mun tamara að hugsa og tala á íslensku, þá var fljótlega fallið frá frekari tilraunum. Mér fannst þetta alltaf dálítið of poppað fyrir minn smekk, og lengi vel ætlaði ég ekki að hafa það með, en með sneddí bíti Jóns Geirs varð úr ágætis tjillaður poppgleðigjafi.
Kveðja, Áslaug
..og ef þig sárvantar eintak af disknum þá er hann til í Eymundson, 12 tónum, Skífunni, tonlist.is og mmusic.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2009 | 09:56
Mín eigin heimska
Ég eins og miljónir annarra er alltaf í aðhaldi, á leiðinni í aðhald eða að hugsa um að fara í aðhald. Nokkrum sinnum á ári byrja ég og er æðislega dugleg, tek þetta alla leið. En svo eins og hendi sé veifað þá er aðhaldið bara búið og allur árangur aðhaldsins tekur fljótlega á sig sömu mynd og áður. Ég var td. alveg súperdúperdugleg í svona 3 vikur í janúar og þá var ekkert verið að fara rólega af stað. Nei, nei, þá mætti mín 6 daga í viku ásamt því að öll familían fékk bara grænt og vænt að borða. Því næst tók flensan við í 3 vikur, en nú eru alveg liðnar 2 vikur frá því að mín varð þokkalega spræk aftur og í staðinn fyrir að drösla sér af stað, þá skrifa ég frekar pistil um að ég ætti kannski að drífa mig af stað. Já, alveg magnað.
Eitt af því sem heldur mér frá aðhaldinu þessa dagana er að mér finnst ég alltaf heimskast pínulítið meðan að aðhaldið stendur yfir eins heimskulega og það hljómar. Í aðhaldinu reynir maður af veikum mætti að hætta að borða brauð og annað kolvetni eins og uppáhaldsmatinn minn pasta, en það er hreinlega eins og heilinn hætti að starfa, engin sköpun, engar hugmyndir, ekkert! Um daginn sá ég brot úr Oprah þætti, (sem er auðvitað fullkomin heimildarvinna og Kaninn auðvitað aldrei neitt ýktur) og þar kom fram að heilinn þarf kolvetni til að starfa eðlilega. Mín greip þetta auðvitað á lofti sem tákn um að pastaát væri auðvitað nauðsynlegt til að viðhalda eðlilegri heilastarfsemi. Sá svo ekkert meira af þættinum þar sem hefur örugglega eitthvað komið fram um mismunandi gerðir af kolvetni og magn sem hæfilegt er að innbyrða.
Já, ef ég bara væri þessi íþróttakona, sem hreyfði mig eingöngu af nautn og öllu kikkinu sem ég fengi af því að mæta í ræktina! Væri það nú ekki æðislegt! Þess í stað sit ég hér og er að hugsa um að byrja að mæta aftur, spurning um hversu heimskulegt það er. Allavegana jafn heimskt og ég tel mig verða af kolvetnissnauðaaðhaldsfæðinu.
Á morgun segir sá lati og lati er ég,
Knús og kveðja Áslaug,
sem er alveg stútfull af kolvetni og gerir sér því fullkomlega grein fyrir að sumar staðhæfingarnar eru ekki einungis heimskulegar heldur beinlínis rangar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.2.2009 | 09:46
Grjótið..
Metallagið á Lögmálinu, komið í spilarann! Sömu spilarar og áður, nema að gítarinn er í höndum Þráins Árna Baldvinssonar, vinar míns, sem er auðvitað mikill snillingur. Lagið á sér enga sérstaka sögu (surprise!), kannski helst bara boðskapur um að dæma ekki aðra, eins og við séum sjálf einhverjar heilagar indverskar kýr. Hækka vel og hlusta!
Knús, knús á föstudegi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.2.2009 | 23:32
Sæll
Gerði forskot á sæluna og fór út að borða. Já, giskaðu? Basil og Lime. Ansi fínt bara, ætlaði svo á tónleika en sá fram á að sætaskipan yrði frekar þannig að ég þyrfti að standa, svo ég hætti við og fór heim. Heima er BEST. En augljóslega sökum aldurs þá er maður algjörlega hættur að nenna að mæta á tónleika standandi. Kaupi kannski eina köku á morgun, svo ef þú átt leið hjá, endilega kíktu! Knús og kveðja, Áslaug (á miðjum fertugsaldri, eftir 24 mínútur)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.2.2009 | 14:12
Sálfræðibull og gott partý
Hrós er að mér finnst merkilegt fyrirbæri eða öllu heldur að taka hrósi. Ég er td. mjög léleg í þeirri grein og pæli stundum í því afhverju ég sé svona léleg á þessum vettvangi og geti ekki tekið hrósi eins og manneskja. Ég veit mæta vel að ég er ekki ein með þessa vankunnáttu en mér finnst þetta svolítið skrítið.
Mér verður oft hugsað til þess þegar Matthías litli hélt sína fyrstu tónleika um jólin, þar sem hann spilaði á einn streng á fiðluna í hópi með öðrum. Eftir tónleikana fékk hann auðvitað mikið lof fyrir (enda snillingur og allt það). Í bílnum á leiðinni heim gat mamman ekki orða bundist að hrósa prinsinum aðeins meira: Matthías, þetta var rosalega flott hjá þér og hann svaraði Já, svona eins og já, ég veit, ég var æðislegur. Á þeirri stundu hugsaði ég afhverju er maður ekki svona, hvar á leiðinni tapar maður þessum hæfileika. Fá hrós, þakka pent og já, ég var bara frekar góður.
Mín upplifun er hins vegar oftast: fá hrós, þakka pent og byrja svo að afsaka, annaðhvort að það sé einhverjum öðrum að þakka árangurinn eða að þetta hafi nú verið meiri slembilukkan hvað þetta hafi gengið vel. Seinni kaflinn er svo þegar maður byrjar að telja upp það sem manni sjálfum fannst úrskeiðis hafa farið. Já þetta er doldið spes. Held reyndar að við kvennpeningurinn séum ennþá verri í þessari deild, strákarnir oftar nokkuð samþykkir því að þeir séu bara svolítið flínkir og klárir.
Ætli það sé ekki hægt að fara á námskeið í þessum fræðum lærðu að taka hrósi án þess að líta út eins og fífl, það er spurning? Ekki það að í samfélaginu eru alveg nokkrir sem gætu tekið að sér námskeiðshald af þessu tagi, sem virðast hafa óbilandi trú á öllu sem þeir taka sér fyrir hendur.
Hef sjaldan skemmt mér betur yfir Evróvisjón. Ekki það að mér var slétt sama hver myndi vinna, en hélt auðvitað pínu meira með atriðunum þar sem maður þekkti einhvern (klassískur íslenskur klíkuskapur). Nei, það voru eiginlega ekki lögin sem gerðu stemninguna, heldur börnin. Seinni partinn í gær var byrjað að plana partýið, það átti að vera nammi í notabene, nokkrum skálum og SNAKK! Allir með það á hreinu að um leið og Spaugstofan væri búin, þá myndi keppnin byrja. Mitt fólk búið að mynda sér skoðanir á lögunum og miklar pælingar hver myndi vinna. Hálfdán Helgi í fararbroddi með spekúlasjónir og skoðanir um hver væri Bestur og hjá þeim var það spurningin um að vinna eða tapa í Evróvisjón. Ótrúlega skemmtilegt að hlusta á umræðurnar hjá tveimur að verða 6 ára og einum á fimmta ári:já, þetta var nú bara ágætt, Þetta er best, þetta var ömurlegt, þessi er búinn að skipta umbúning. Já eftir þessa upplifun blæs ég á umræðuna um að Íslendingar eigi að hætta þátttöku í Evróinu. So what, þó það kosti Rúv einhvern pening að halda úti keppninni. Umgjörðin mun mínimalískari en oft, en virkaði samt fínt. Megum ekki gleyma okkur í leiðinda kreppu smeppu umræðunni og um að gera að halda Góð Evróvisionpartý, með nammi í mörgum skálum. Fjölskyldustund af bestu gerð.
Sunnudagskveðja, Áslaug
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.2.2009 | 07:44
Vetrarhátíð
Föstudagur 13. febrúar
Draugar og skuggaskemmtanir í Sjóminjasafninu! Ókeypis fjölskylduskemmtun!
19.00 Sjóminjasafnið opnar fyrir hugrökkum gestum og gangandi
19.30 Svaðalegar sögur frá Svabba sjóara
Svabbi sjóari úr Stundinni okkar stígur á skipsfjöl og segir börnum og foreldrum alveg hrikalega sannar sögur, margar svaðalegar, enda hefur Svabbi siglt með ótal fleyjum um heimsins höf og til baka.
20.00 Gyllir sjóinn sunna rík
Sívinsælir íslenskir sjómannasöngvar í boði Söngskólans við Grandagarð, fluttir af þilfari Gullfoss
20.30 Rafmagnslaust!?
Leiðsögn með vasaljósi um skuggalegar sýningar safnsins
21.00 Gyllir sjóinn sunna rík
Íslenskir sjómannasöngvar Söngskólans fluttir á nýjum stað.
21.30 Hverjir þora?
Þeir sem þora eru leiddir um þrönga og dimma ganga varðskipsins Óðins, rangala sem ekki eru að jafnaði til sýnis í skipinu. Varúð: Ekki fyrir þá sem eru myrkhræddir og/eða með innlokunarkennd!
22.00 Útreknir draugar
M-Gospel project rekur út drauga með amerískum negrasálmum, sem fluttir verða í rokkuðum útsetningum í bland við nýsmíðar sem vökva sálartetrið í skammdeginu. Þeim til aðstoðar verður söngkonan Áslaug Helga Hálddánardóttir, en M-Gospel project skipa Matti sax, Þröstur Jóhannsson, Jón Geir Jóhannsson, Ingólfur Magnússon og Stefán H. Henrýsson.
Í sérstökum sölubásum geta gestir keypt sér sjóræningapylsur og nammi sæfara.
Alveg spurning um að mæta, gæti orðið áhugavert og pottþétt skemmtilegt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2009 | 03:45
Hræðslan við það óþekkta?
Ég er fordómafull, ég myndi samt aldrei lýsa mér sem fordómafullri manneskju. Ég er eiginlega sannfærð um eigið ágæti, að ég sé nokkuð réttsýn, svona oftast allavegana. Ég er viss um að ég sé frekar opin manneskja, sem sýnir samúð og gefur öðrum tækifæri. Ég dæmi ekki aðra. En er þetta rétt? Örugglega 98 prósent mannkyns er sammála og getur lýst sjálfum sér með þessum sömu orðum. Alveg sama, á hvað við trúum, hvaða stjórnmálaflokk við kjósum, í hvaða heimsálfu við búum, hvaða tónlistarstefnu við fílum, hvort sem við klæðumst sparifötum á mánudegi eða ekki. Innst inni, þá er ég samt fordómafull. Ég er fordómafull gagnvart því sem ég þekki ekki og fordómafull gagnvart því sem ég hræðist.
Það er nótt og ég vakna. Ég finn fyrir stórum hnút í maganum mínum. Hugsanirnar kaffæra hver aðra. Get ekki sofnað, en samt veit ég alveg hver það er sem er að banka. Hræðslan við það óþekkta. Hræðslan við að vita ekki, hræðslan við að vita ekki hvað tekur við. Bara að ég væri svolítið hugaðri, tæki öllu með stóískri ró, lifa hvern dag fyrir sig og ekki vera að velta sér upp úr framhaldinu.
Já, á nóttinni getur maður verið svo heimspekilegur, nú eða fávís sauður í stórri hjörð.
Góða nótt, ætla að reyna að sofna aftur.
Knús
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.2.2009 | 10:23
Í 4 liðum vildi ég sagt hafa..
Fyrsta mál á dagskrá
Matti heldur tónleika á fimmtudagskvöldið 5 febrúar á Rosenberg (Klapparstíg) ásamt hljómsveit. Þar verður flutt tónlist eftir hann í blúsjössuðumMattastíl. Fyrir þá sem hafa gaman að instrumental (hljóðfæraleikur án söngs) tónlist, þá eru þetta tónleikar sem ekki má missa af. Það verða nú reyndar 2-3 sönglög á prógramminu, sem mín lætur gamminn geysa í, ef lukkan verður með mér og röddin verður farina ð láta á sér kræla aftur. Segi að instrumental tónlist er svona oftast ekki minn tebolli, reyni alltaf að vera æðislega artífartí og hlusta af mikilli athygli en dett svo á endanum út mér sjálfri til mikillar óánægju. Segi þó að þetta er mjög skemmtileg instrumental tónlist, fjölbreytt og ég næ að halda athyglinni og hafa gaman að, svo ég mæli með þessum gjörning. Frábærir spilarar í bandinu, svo þetta verður alvöru. Endilega að mæta, létta sér lífið í skammdeginu og hressa sig við með lifandi tónlist og drykk við hendina. Æji, tónlist er svo góð fyrir sálina.
Annað mál á dagskrá
Heldur betur lukka með á heimilinu að tvíburarnir eru að hefja tónlistarnám eins og litli prins. Komust bæði inn til að læra á Suzuki-selló. Margra ára biðlisti á fiðluna, svo í staðinn var boðið upp á sellóið fyrir þá sem hafa áhuga. Sama regla, nú eru foreldrarnir komnir á sellónámskeið og svo þegar þeir fara að standa sig, þá fara tvibbarnir að mæta í tíma. Sjáum fram á mikið góðæri í strengjaleik á heimilinu, skellum svo bara Hálfdáni Helga á kontrabassann eftir nokkur ár og verðum þá komin með þetta fína trío, fiðla, selló og kontrabassi. Jafnvel djókað með að leggja í fjórða barnið sem yrði pínt á víólu og fullkominn strengjakvartett yrði starfræktur. Nei, við erum ekkert fríkí! En svona í alvöru talað, þá er þetta bara besta mál að allir fái að prófa og svo sjáum við hvort áhuginn sé fyrir hendi.
Þriðja mál á dagskrá
Muniði eftir myndbandinu sem var sýnt í grunnskóla, þar sem eldri kona leiðir súrefniskút á eftir sér og er með sígarettuna í hinni hendinni? Þessi mynd hefur poppað ansi oft upp í kollinn á mér síðustu daga. Afhverju? Jú, af því að ég er farin að sjá fyrir mér að þessi eldri kona sé ég, eftir nokkuð mörg ár. Ég hef ekki orðið svona lasin í mörg ár, búin að taka núna tvær vikur í þessi ósköp. Ekki nóg með að kljást við minn eigin hroka gagnvart veikindum sem mér finnast ekki alvarleg, að allan tímann þá hef ég samt ekki lagt sígarettunni. Kannski reykt minna, en ekki hætt. Ég gæti gubbað yfir sjálfri mér. Ég finn mér sífelldar afsakanir fyrir því að hætta ekki að reykja. Afsökunin sem hefur haldið mér hvað best við efnið síðustu ár er. Það tekur því ekki að hætta að reykja, því um leið og Matthías lendir inni á spítala, þá byrja ég hvort sem er aftur. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta er fáránleg afsökun. Nei, mig langar ekkert að verða eldri konan með súrefniskútinn í annarri og sígarettuna í hinni. Fyrsta skref, farin að hugsa um af alvöru að hætta að reykja.
Fjórða mál á dagskrá
Kveðja, þetta er þegar orðið allt of langt raus um allt og ekkert.
Stórt knús, Áslaug
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.1.2009 | 15:42
Reið
Ég er hoppandi pirruð og eiginlega ösku(r) ill. Ætti samt að vera afskaplega þakklát og kát. Fór aftur á heilsugæsluna og hitti nýjan doksa. Þessi vildi vera vinur minn, hann gaf mér penisilín! Mín er með lungnabólgu. Málið er að ég vissi alveg á mánudaginn að ég þyrfti að fá penisilín og líklegast væri þetta komið í lungun. Alla helv vikuna er ég búin að liggja eins og skata, hóstandi eins og köttur sem hefur étið gras, ekki getað sinnt börnum og búi. Af því að doktorinn á mánudag ákvað á innan við fimm mínútum að þetta væri bara flensa! Ég gæti verið orðin hress núna, en nei núna tek ég helgina í það, já spennandi. Ég er ekki týpan sem er mætt að hitta doksann ef ég er með hor eða illt í litlu tá. Ég mæti eingöngu þegar ég virkilega tel að hann geti mögulegast gert eitthvað fyrir mig. Af fenginni reynslu þá nefnilega veit ég að þessar elskur hafa svo sannarlega sína takmörkuðu vitneskju. Ég þekki líka rökin fyrir því afhverju penisilín fæst ekki í matvöruverslunum og sögurnar um fjölónæmubakteríurnar og allt það. En stundum veit maður bara og þá er ekki hlustað á mann og ÞÁ verður kellingin óendanlega pirruð, sér í lagi þegar hún hafði rétt fyrir sér í upphafi.
Jæja þetta var reiðipistill ársins. Ákvað einhverntíman að blogga aldrei á meðan mér er heitt í hamsi, því þá gæti maður sagt eitthvað sem betur væri ósagt. Held að mér líði samt strax betur. Takk fyrir að hlusta.
Kveðja Áslaug pirraða
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Um bloggið
Aslaug
Tónlistarspilari
Bloggvinir
- sax
- metal
- thoragudmanns
- sibbulina
- ragnaremil
- fjolan
- benjonikla
- siggav
- ingvarvalgeirs
- peturorn
- nesirokk
- saxi
- ktomm
- gudnim
- jakobsmagg
- ivg
- swiss
- millarnir
- fjola
- hjolaferd
- smarijokull
- kristmundsdottir
- joningvar
- hogmogskhihollandi
- judas
- hallurg
- bless
- josi
- hofi
- gunnarfreyr
- ingo
- olafurfa
- saethorhelgi
- steinibriem
- charliekart
- gunnarpalsson
- gossipp
- handtoskuserian
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar