Nú er sumar...

Fyrsta ferðalag sumarsins var sumarbústaðarreisa að Ökrum í Borgarfirði.  Við höfðum nú ætlað að leggja í hann á föstudegi, en sökum þess að þessari barnmörgu fjölskyldu gekk svo hægt að pakka niður öllu draslinu, sem taka skyldi með, þá tafðist ferðin fram á laugardag.  Á endanum tókst þó að leggja í hann og átti fjölskyldan góðan og notalegan tíma í sveitasælunni.  Allt gekk vel þó svo þröngt mættu sáttir sitja.  Fyrir vísitölufjölskylduna þá hefði líklegast talist nægjanlegt rými, en við teljumst víst seint eitthvað venjuleg.  Tvíburarnir gistu í dvergakoju, hef aldrei séð svona litla og stutta koju áður, mamman svaf í herberginu ásamt Matthíasi og dælunni, og pabbanum var úthýst í stofusófann ásamt Magnúsi Hinrik, sem svaf í vagninum, en hurðarnar voru nógu ólöglegar til að venjulegur vagn komst ekki lönd né strönd í gegnum hurðaropin.  Á efri hæðinni er þó líka rúm, en þangað kom maður hvorki vagni, né dælu.  Já seint teljumst við nú venjuleg fjölskylda.  Góðir gestir fengu þó hvíld á efrihæðinni eða þannig séð hvíld.  Fyrsta nóttin boðaði þó fall er fararheill, þar sem Matthías hrundi út úr rúminu og græddi kúlu og klukkutíma seinna ældi Hálfdán Helgi.  Eftir þetta datt þó allt í dúnalogn eða þannig.  Keyrðum um sveitir, heimsóttum Reykholt, börnin hentu pening í Snorralaug og óskuðu sér.  Mikið sport að skoða kirkjugarðinn, sérstaklega tvíburarnir sem eru orðin læs og gátu lesið nöfn og ártöl.  „Ó jesú bróðir besti“ sungu börnin svo inni í gömlu kirkjunni, ákaflega fallegt InLove.  Keyrt inn á Hvanneyri og rólóar tékkaðir út þar, sem og annarstaðar.  Leikið og leikið meira í sumarbústaðnum, úti og inni, drullumallað og rólað. 

Magnús Hinrik fékk augnsýkingu og var brunað með hann í Borgarnes, þar sem lítið læknabarn skrifaði upp á augndropa á þriðjueginum.  Pínu furðulegt að læknabarnið skoðaði hann ekkert að öðru leiti.  Mamman samt ánægð með að fá augndropana.  Um kvöldið er Magnús Hinrik hinn órólegasti, en eins og ég hef áður sagt, þá er hann allavegana rólegasta barn sem ég hef kynnst.  Um nóttina er hann kominn með hita og togar í hægra eyrað.  Við veltum því fyrir okkur hvort bruna skuli í bæinn eða láta kíkja á hann aftur í Borganesi.  Ákváðum að víst við vorum komin alla þessa leið, með börnin og allt draslið í farteskinu að þá skyldum við tékka aftur á heilsugæslunni.  Ekki var það nú ferð til fjár, eyrnabólga sást í hægra eyranu en eina sem mamman græddi var fyrirlestur frá öðru litlu læknabarni um fjölónæmarbakteríur. 

Mamman sem telur sig nú margt vita um fjölónæmarbakteríur komst nú ekki hjá því að hugsa afhverju ákveðnir staðir úti á landi, séu með tölfræðilega minni tíðni af sýklalyfjanotkun við eyrnabólgu heldur en aðrir staðir og hreykja sér hátt af þessari lágu tölfræði.  Mamman hugsaði til allra foreldranna á þessum stöðum, svefnlausar nætur og erfiðir dagar með eymingjans krílin sem grenja úr sér lungun af sársauku.  Því allir sem hafa einhverntíman á ævinni fengið eyrnabólgu vita hvað það er hræðilega vont. Já, þetta hugsaði mamman á meðan læknabarnið hélt fyrirlestur um fjölónæmarbakteríur.  Augndroparnir skyldu duga, en engin sýklalyf!

Mamman var nú ekkert svakalega yndæl á svipinn við læknabarnið, en þakkaði fyrir sig og kvaddi.  Við ákváðum að drífa okkur af stað í bæinn, nenntum ekki að vera með veikt barn á ferðalagi.  Magnúsi Hinrik versnaði stanslaust í auganu, togaði í eyrað.  Mamman hugsaði samt að kannski læknabarnið hafi bara haft rétt fyrir sér.  Á mánudeginum er mömmunni þó nóg boðið, enda barnið komið með sár undir auganu og stanslaust vaknandi á nóttinni og ekki alveg líkur sjálfum sér.  Sérfræðingur í Dómus var nú ekki lengi að skrifa upp á sýklalyf fyrir mömmuna, aðeins ein BAKTERÍA veldur augnsýkingu og eyrnabólgu saman og þá þarf sýklalyf.  Þannig að ef bæði læknabörnin á heilsugæslunni hefðu reiknað saman 2+2=4, þá hefði Magnús Hinrik ekki þurft að pínast í heila viku, vegna hræðslu við fjölónæmarbakteríur.  Mamman hugsaði með sér hvað hún hefði eiginlega verið að hugsa að reyna að treysta litlu læknabörnunum!

Tek það fram ef einhver með sýklalyfjafóbíu og mikla hræðslu við fjölónæmarbakteríur les þetta, að þá geri ég mér fullkomlega grein fyrir að við viljum ekki ofnota sýklalyf, og að fjölónæmarbakteríur eru dauðans alvara, en í ákveðnum tilfellum  þá þarf nú bara samt að nota sýklalyf.

Jæja, ferðin í Borgarfjörðinn var samt frábær og það var júní, ætla að haska mér til að skrifa um fleiri ævintýri okkar fjölskyldunnar, því sjaldan hefur meira verið afrekað á einu sumri.

Sumarkveðja, „hressa“ mammanWink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Aslaug

Höfundur

Áslaug Helga Hálfdánardóttir
Áslaug Helga Hálfdánardóttir

Tónlistarspilari

1.Happy family - Áslaug Helga
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 1070

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband